Staðfesting á skilyrðum orkusamninga ræður framvindu í Helguvík
Century Aluminium, móðurfélag Norðuráls, vinnur hörðum höndum að því að hnýta lausa enda varðandi orkuöflun fyrir nýtt álver fyrirtækisins í Helguvík.
Þetta hefur Dow Jones-fréttaveitan m.a. eftir Logan Kruger, forstjóra Century og sagt er frá á mbl.is. en hann segir að staðfesting á skilyrðum orkusamninga
valdi mestu um það hvenær skriður kemst á framkvæmdir við álverið að nýju. Fjármögnun uppbyggingar álversins mun vera í höfn.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Century að mikil vinna hafi verið lögð í að ganga frá þeim málum sem út af standa
og að lokaviðræður við orkufyrirtækin um staðfestingu skilyrðanna hafi úrslitaáhrif á það hvenær verkfræðivinna og framkvæmdir í Helguvík fari á fulla ferð að nýju.