Sporthúsið opnar á Ásbrú í Reykjanesbæ
Sporthúsið mun opna nýja og glæsilega 2000 fermetra heilsu- og líkamsræktarstöð á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þetta verður sterk eining og viðbót innan heilsuþorps Ásbrúar og þar með hluti af vaxandi samfélagi frumkvöðla, fræða og atvinnulífs á Ásbrú sem telur yfir 90 fyrirtæki og stofnanir, 500 starfsmenn, 600 námsmenn og 1.800 íbúa.
Það er Suðurnesjafólkið og hjónin Ari Elíasson og Eva Lind Ómarsdóttir sem eiga og reka stöðina ásamt eigendum Sporthússins í Kópavogi, þeim Þresti Jóni og Inga Páli Sigurðssonum. Sporthúsið er vel þekkt fyrirtæki á þessu sviði og rekur eina stærstu og öflugustu líkamsræktarstöð landsins í Kópavogi.
Í samtali við vf.is sögðu þau Ari, Eva og Þröstur að mikill metnaður væri fyrir því að byggja upp öfluga heilsu- og líkamsræktarstöð með fjölbreyttu framboði til hollrar hreyfingar fyrir Suðurnesjafólk á öllum aldri. Markmiðið væri að veita framúrskarandi persónulega þjónustu, bjóða upp á fjölbreytt úrval af opnum tímum og námskeiðum þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Stöðin mun bjóða allt það helsta í líkamsrækt í dag; fullkomin tækjasal, einkaþjálfun, leikfimisali , CrossFit, HotYoga, skvass, spinning, Fit pilates, ketilbjöllur og úrval opinna tíma. Einnig verður boðið uppá barnagæslu, veitingasölu og boostbar, auk þess sem fyrirhuguð er opnun verslunnar í húsnæðinu.
Þá verður Sporthúsið í samstarfi við íþrótta- og heilsuskóla Keilis.
„Við stefnum á opnun laugardaginn 15. september næstkomandi. Hluta aðstöðunnar verður lokað tímabundið frá og með laugardeginum 18. ágúst. Viðskiptavinir geta þó æft í tækjasal og ástundað þau námskeið sem seld hafa verið á þessu tímabili. Viðskiptavinir sem hafa nú þegar virkan aðgang að stöðinni munu halda sínum kortum óbreyttum. Miklar endurbætur verða gerðar á húsinu og allri aðstöðu og eru þær nú þegar hafnar,“ sögðu nýjir rekstraraðilar í samtali við Víkurfréttir.
„Á Ásbrú hefur mótast einstakt umhverfi fyrir skapandi og kraftmikil fyrirtæki. Við fögnum því að fá Sporthúsið í rekstur innan Heilsuþorps Ásbrúar sem mun styrkja það og efla enn frekar. Þá munu Sporthúsið og Heilsuskóli Keilis styðja vel við hvort annað og skapa skemmtileg tækifæri til samstarfs.“ segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sem hefur leitt uppbyggingu Ásbrúar undanfarin ár.