Spkef þarf á annan tug milljarða
Íslenska ríkið þarf að leggja SpKef sparisjóði til vel á annan tug milljarða króna, til að tryggja áframhaldandi starfsemi sparisjóðsins. Kröfuhafar gamla Sparisjóðsins í Keflavík fá lítið sem ekkert upp í kröfur sínar, þeirra á meðal um 600 stofnfjárhafar. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum Rúv í kvöld.
Ríkið tók Sparisjóðinn í Keflavík yfir þann 22. apríl síðastliðinn. Sparisjóðurinn hafði þá verið rekinn á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu frá því í maí 2009, vegna bágborins eiginfjárhlutfalls. Innlán og allar eignir sparisjóðsins voru fluttar yfir í nýjan SP-Kef sparisjóð, en skuldir og kröfur sátu eftir í gamla sparisjóðnum. Innlán SP-Kef voru upp á 55 milljarða króna í lok árs 2008, en heimildir fréttastofu herma að skuldir þrotabúsins hljóði upp á allt að 25 milljarða króna. Nú er unnið að mati á eignum sparisjóðsins, en drög að samkomulagi um fullnaðaruppgjör vegna yfirtöku nýja SP-Kef á eignunum til kröfuhafa, upp á 300 milljónir króna, var í fyrstu samþykkt af hálfu slitastjórnar, en enn ekki hefur verið gengið frá endanlegum samningum vegna óánægju af hálfu kröfuhafa. Fjármálaeftirlitið vinnur nú að endanlegum stofnefnahagsreikningi og stefnir að því að kynna hann í næstu viku. Heimildir fréttastofu Rúv herma að íslenska ríkið þurfi að greiða um fjórtán milljarða króna inn í hinn nýja SP-Kef í formi eigin fjár, til að mæta skuldbindingum vegna innlána og uppfylla lágmarks eiginfjárhlutfall Fjármálaeftirlitisns, sem er sextán prósent.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fór í kvöld fram á fund í viðskiptanefnd Alþingis vegna frétta um að ríkið þurfi að reiða fram á annan tug milljarða króna inn í Sparisjóð Keflavíkur.
Endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Coopers rannsakar nú fyrir tilstuðlan FME hvort farið hafi verið að lögum og reglum í starfsemi sparisjóðsins. Slitastjórnin mun á grundvelli þeirrar rannsóknar íhuga hvort ástæða sé til að krefjast riftunar á vafasömum fjármálagjörningum stjórnar sparisjóðsins. Samkvæmt heimildum er þar á meðal starfslokasamningur fyrrverandi sparisjóðsstjóra upp á tugi milljóna króna, auk útgreiðslu á séreignalífeyrissparnaði hans upp á sjötíu milljónir, í janúar 2009, fjórum mánuðum fyrir fall sparisjóðsins.
Slitastjórn sparisjóðsins birtir kröfuhafalista sinn á morgun, en um níu hundruð lýstu kröfu í búið, þar af um sex hundruð stofnfjárhafar sem missa allt sitt í sparisjóðnum. Afar litlar líkur eru á að kröfuhafar muni fá nokkuð upp í kröfur sínar. Búist er við að eignarhlutur ríkisins í sparisjóðnum verði færður yfir til Bankasýslu ríkisins á næstu vikum, en ríkið hefur nú þegar lagt sparisjóðnum til um níu hundruð milljónir króna í stofnfé, og lítur á sparisjóðinn sem hryggjarstykki íslenska sparisjóðakerfisins.
Guðlaugur Þór segir þetta mjög háar upphæðir og málið hafi ekki verið rætt í viðskiptanefnd. Hann segir að í júni árið 2009 hafi verið keyrðar í gegn lagabreytingar til að bjarga sparisjóðnum. 14 milljarðar séu um helmingurinn af rekstarkostnaði Landspítalans, og því ljóst að um gríðarlega stóra fjárhæð sé að ræða fyrir skattgreiðendur. Guðlaugur segist vilja fá skýringar á þessu í viðskiptanefnd. Hvernig menn ætli að byggja upp sparisjóðakerfi í nánustu framtíð ef skattgreiðendur eigi að leggja þessum sjóði og hugsanlega fleiri sjóðum til þessa fjármuni.