SpKef opnar útibú í Reykjavík
Sparisjóðurinn í Keflavík opnaði í dag nýja og glæsilega afgreiðslu í Borgartúni í Reykjavík. Afgreiðslur Sparisjóðsins verða þá 8 talsins en fyrir eru afgreiðslur í Njarðvík, Garði, Grindavík, Sandgerði, Ólafsvík og Vogum en höfuðstöðvar eru í Keflavík. Á dögunum fagnaði Sparisjóðurinn í Keflavík 100 ára afmæli en hann hefur starfað á Suðurnesjum frá stofnun hans 1907. Á þessu ári var starfssvæðið útvíkkað með sameiningu við Sparisjóð Ólafsvíkur og þegar eru samþykktar sameiningar við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda. Einnig er í burðarliðnum að bæta Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis í hópinn. Því er ljóst að starfssvæði Sparisjóðsins í Keflavík hefur teygt sig víða um land og nú verður þjónustan við viðskiptavini á höfuðborgarsvæðinu aukin til muna. Það hefur sýnt sig að viðskiptavinir Sparisjóðsins hafa haldið tryggð við sína fjármálastofnun þó þeir hafi flutt sig um set og nú er svo komið að nær fimmtungur viðskiptavinahópsins býr í höfuðborginni.
Smári Ríkarðsson mun veita afgreiðslunni forstöðu og í byrjun verða auk hans tveir starfsmenn sem munu veita alla almenna fjármálaþjónustu.
Afgreiðslan verður opin á hefðbundnum opnunartíma, þ.e. virka daga frá kl. 9:15 – 16:00.
Smári Ríkarðsson mun veita afgreiðslunni forstöðu og í byrjun verða auk hans tveir starfsmenn sem munu veita alla almenna fjármálaþjónustu.
Afgreiðslan verður opin á hefðbundnum opnunartíma, þ.e. virka daga frá kl. 9:15 – 16:00.