Karlakórinn
Karlakórinn

Viðskipti

Spennandi tímar framundan hjá Dacoda og CookieHub
Magnús, Þorsteinn, Ástþór og Júlíus.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 20. apríl 2022 kl. 11:41

Spennandi tímar framundan hjá Dacoda og CookieHub

Félög í eigu bræðranna Magnúsar Sverris Þorsteinssonar og Þorsteins Þorsteinssonar og maka þeirra festu nýverið kaup á helmingi alls hlutafjár Dacoda ehf. af þeim Júlíusi Frey Guðmundssyni og Ástþóri Inga Péturssyni. Þá keyptu fyrrnefnd félög einnig 25% hlut í Cookiehub ehf. sem býður upp á heildarlausn fyrir vefsíður til að uppfylla kröfur um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga með því að bjóða notendum upp á að veita samþykki fyrir notkun á vafrakökum á einfaldan hátt. Kaupin sem hér um ræðir þykja áhugaverð fyrir margra sakir en Dacoda er forritunarfyrirtæki og þeir bræður einna helst þekktir fyrir að stýra bílaleigunni Blue Car Rental.

Þorsteinn kvað hugmyndina að kaupunum hafa blundað í þó nokkurn tíma. „Við Júlíus höfum rætt þessi mál með opnum huga í um tvö ár en létum loks verða að þessu núna.“ Aðspurður um ástæðu kaupanna kveður Þorsteinn hana margþætta en fyrst og fremst hafi hugmyndin verið að leiða saman kraftmikla og drífandi aðila á Suðurnesjum sem hafa metnað og vilja til að gera enn betur á sínum sviðum. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við sjáum marga kosti í þessu skrefi sem við erum að taka. Allt sem við vinnum að í dag og í framtíðinni snýr að stafrænni vegferð. Dæmi um þetta er Blue Car Rental því þó við séum í grunninn bílaleiga er fyrirtækið að mestu leyti gagnadrifið tæknifyrirtæki þar sem lokavaran er svo bílaleigubíll. Þá teljum við auðvitað mikil tækifæri fólgin í því að tengja saman og samnýta þá færni sem er innan eigendahóps og starfsmanna þeirra fyrirtæka sem leiða nú saman hesta sína.“ 

Júlíus Freyr, framkvæmdastjóri Dacoda ehf. og Cookiehub ehf., tekur í sama streng og telur söluna heillaspor fyrir starfsemi fyrirtækjanna en Dacoda varð tuttugu ára á þessu ári. „Kaupin skapa ný tækifæri fyrir okkur og þær lausnir sem við höfum verið að bjóða upp á. Það má segja að þau séu líka ný áskorun þar sem að við erum að fá menn með allt aðra færni og viðskiptasýn til liðs við okkur.“

Lausnir CookieHub eru áhugaverðar fyrir margar sakir en þar er um að ræða lausn sem er ekki bundin við nein landamæri og viðskiptavinir um allan heim að nýta lausnir félagsins daglega. Aðspurður segir Þorsteinn að stefnan sé klárlega að bæta í og stökkva á þau tækifæri sem eru til staðar í þessu umhverfi sem og hjá Dacoda, sem er eina forritunarfyrirtækið í Reykjanesbæ. Til að gera það þurfi mannskap en þeir bræður hafa þegar skapað einn stærsta vinnustað Reykjanesbæjar í Blue Car Rental. 

„Við fórum í þessi viðskipti til að gera enn betur og liður í því er að fjölga fólki. Við höfum opnað fyrir umsóknir og leitum eftir kröftugum einstaklingum til að koma og vinna með okkur, bæði hjá Dacoda og Cookiehub. Við ætlum að okkur að skapa mjög spennandi vinnustað og eru forritarar, verkefnastjóri og hönnuður meðal starfsgilda sem við leitum að núna. Við hvetjum fólk á Suðurnesjum að sækja um þessi nýju og spennandi störf sem við erum að skapa hér í Reykjanesbæ,“ segir Þorsteinn.