Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sparisjóðurinn stendur enn
Fimmtudagur 16. október 2008 kl. 08:51

Sparisjóðurinn stendur enn


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Sparisjóðurinn í Keflavík heldur sjó í því ölduróti sem íslenska bankakerfið er í og engar meiriháttar breytingar eru fyrirhugaðar á starfsseminni.“ Þetta segir Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri, aðspurður um stöðu Sparisjóðsins í þeirri fjármálakreppu sem skollið hefur á með það miklum krafti að stjórnvöld hafa tekið yfir starfsemi hinna þriggja stóru banka.

Geirmundur segir að eins og allar aðrar fjármálastofnanir glími Sparisjóðurinn við erfiða lausafjárstöðu en það kalli ekki á stórkostlegar breytingar á starfsemi bankans. „Þetta er auðvitað ótrúleg og sorgleg staða sem nú er komin upp í bankakerfinu. Frumvarpið sem forsætisráðherra lagði fram veitir fjármálaráðherra heimild til að veita fé til sparisjóðanna þannig að það er greinilega vilji stjórnvalda að þeir haldi áfram að starfa sterkir eins og þeir hafa verið fram að þessu. Fjölmiðlar voru að keppast við að tala niður sparisjóðina í síðasta mánuði en reyndin varð sú að stóru bankarnir féllu á meðan sparisjóðirnir eru allir starfandi án aðkomu stjórnvalda.“


Heyrst hefur að fólk hafi tekið út af reikningum sínum í bönkunum til að geyma reiðufé undir koddanum og benti Geirmundur á að með því séu viðskiptavinir að tapa innlánsvöxtum sem eru verulega háir í dag. Ef allt fer á versta veg og bankakerfið hrynur þá njóta seðlar engrar ríkistryggingar og verða því verðminni en innstæður.

Samkvæmt 9 mánaða uppgjöri þá er eiginfjárstaða okkar í góðu lagi og við erum enn starfandi af fullum krafti. Sparisjóðirnir eru minni einingar en bankarnir og hafa nær eingöngu verið að fást við svæðisbundin verkefni. Lítið hefur farið fyrir útrásartilburðum og er það því mun minna mál fyrir stjórnvöld að styðja við bakið á sparisjóðunum í landinu en stóru bankanna ef til þess þyrfti að koma.“


„Við munum standa af okkur þessar hamfarir og trúum ekki öðru en að viðskiptavinir okkar og samfélagið sem við höfum starfað með í rúm 100 ár standi með okkur. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa lýst yfir miklum vilja í að styðja okkur í baráttunni og hafa einnig gert það í verki með að senda skilaboð til bæjarbúa um að standa vörð um sinn sparisjóð. Það skiptir öllu máli að fólk hafi standi með okkur og haldi ró sinni á meðan þetta gengur yfir. Sparisjóðurinn er ekki að fara neitt“ segir Geirmundur.


Í upphafi árs fór Sparisjóðurinn í hagræðingaraðgerðir sem snúa að ýmsum þáttum í starfseminni á öllum starfsstöðvum hans. Aðgerðir þessar hafa m.a. leitt til fækkunar starfsmanna um 18 stöðugildi sem er um 13% fækkun. Afgreiðslustöðum á Borðeyri og í Borgartúni hefur verið lokað og annar rekstrarkostnaður hefur verið skorinn verulega niður. Þessum hagræðingaraðgerðum verður auðvitað haldið áfram og ítrasta aðhalds gætt í rekstri.