Sparisjóðurinn í Keflavík: Frekari sameining sparisjóða nauðsynleg
-sagði Sparisjóðsstjóri á aðalfundi Spkef þar sem ríkti mikill einhugur. Ævintýralegur árangur á síðasta ári.„Frekari sameining sparisjóðanna er nauðsynleg til að styrkja grundvöll þeirra“, sagði Geirmundur Kristinsson, Sparisjóðssstjóri en mikill einhugur ríkti á aðalfundi Sparisjóðsins í Keflavík í Stapa á föstudaginn en eins og fram hefur komið var nærri fimm milljarða hagnaður af rekstri sjóðsins á síðasta ári. Sparisjóðurinn fagnar 100 ára afmæli á þessu ári.
Geirmundur Kristinsson sagði stærstu ástæðu góðs gengis Sparisjóðsins hafi verið hækkun á gengi fjármálafyrirtækisins Exista sem var skráð á markað sl. haust en Spkef á verulega stóran hlut í félaginu. Í ræðu sparisjóðsstjóra kom fram að erfitt væri orðið að greina á milli reglulegrar starfsemi sparisjóðsins og fjármálaumsvifa en hagnaður sjóðsins undanfarin ár hefur nær eingöngu verið vegna fjármálaumsvifa.
Tómas Tómasson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri tók undir þessi orð Geirmundar í ræðu sinni og sagði að undirstaða eiginfjár Sparisjóðsins í 95 ár væri strit og sviti Suðurnesjamanna en síðustu fimm árin vegna fjármálaumsvifa. Tómas minnti á að það hafi verið Sparisjóðurinn í Keflavík með tveimur öðrum aðilum sem stofnuðu Kaupþing á sínum tíma og nú væri arður þess að koma fram.
Árangur í rekstri Spkef á síðasta ári gerði það að verkum að eigið fé sjóðsins þrefaldaðist. Tómas sagði að stofnfjáreigendur sjóðsins stæðu á bakvið Sparisjóðinn og það væri honum mikill styrkur. Það hafi lika sýnt sig þegar allir stofnfjáreigendur ákváðu að nýta sér kauprétt á stofnfé fyrir áramót. Á fundinum var m.a. samþykkt að auka stofnfé enn frekar eða um einn milljarð króna.Geirmundur sagði að í ljósi sameiningar Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Vélstjóra undir nafninu Byr væri ljóst að aðrir sparisjóðir þyrftu að skoða alvarlega frekari sameiningu til að styrkja sparisjóðafjölskylduna en þar væri Sparisjóðurinn í Keflavík nú stærsti aðilinn. Byr og Spron eru nú tveir stærstu sparisjóðirnir í landinu. Geirmundur sagði að viðræður væru þegar hafnar í þessum málum en tilgreindi ekki hverja Spkef væri að ræða við en á síðasta ári sameinaðist Sparisjóður Ólafsvíkur Keflavík og sagði fráfarandi formaður stjórnar sjóðsins í Ólafsvík að það hafi verið mikið gæfuspor. „Árangur Spkef á síðasta ári er sennilega landsmet. Við vissum ekki hvurslags mulningsvél þetta væri. Ég er mjög stoltur af því að koma Sparisjóði Ólafsvíkur í faðm Spkef, sem er orðið meðal stærstu fjármálafyrirtækja á landinu“.
Fram kom í ræðu sparisjóðsstjóra að Spkef hafi og muni áfram verða leiðandi aðili á Suðurnesjum í styrkjum og framlögum til samfélagslegrar starfsemi, íþrótta og menningarmála. Á síðasta ári hafi yfir 40 milljónum verið varið til slíkra mála og á þessu ári yrði gert enn meira í tilefni 100 ára afmælis Spkef. Undir það tók Tómas Tómasson og sagði að Spkef ætti að halda áfram ekki síst í ljósi góðrar stöðu að vera sem sýnilegastur á svæðinu. Samkeppnin hafi aldrei verið meiri og því væri mikilvægt að styrkja þann bakhjarl sem Sparisjóðurinn hefði á Suðurnesjum.
Stjórn Spkef var endurkjörinn að mestu leyti. Eina breytingin varð sú að fulltrúi Sparisjóðs Ólafsvíkur kom inn í nýja stjórn í stað annars fulltrúar sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Sjá viðtal við Geirmund Kristinsson í Vefsjónvarpi Víkurfrétta á forsíðu vf.is