Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Viðskipti

Spara tíma með Stemmaranum
Á myndinni má sjá hugmyndasmiðina á bak við Stemmarann. Frá vinstri Rúnar Dór Daníelsson, Pálmi Ólafur Theodórsson og Yngvi Rafn Guðmundsson.
Föstudagur 17. júní 2016 kl. 06:00

Spara tíma með Stemmaranum

- Þróuðu forrit sem flýtir fyrir afstemmingu í bókhaldi

„Þetta forrit er í rauninni eins og mjög hraðvirkur yfirstrikunarpenni,“ segir Rúnar Dór Daníelsson, löggildur endurskoðandi hjá Deloitte. Hann, ásamt Ingva Rafni Guðmundssyni, hugbúnaðarsérfræðingi hjá LS Retail og Pálma Ólafi Theodórssyni, viðskiptafræðingi hjá Deloitte, hafa þróað forritið Stemmarinn sem flýtir fyrir afstemmingu í bókhaldi. Þeir Rúnar Dór og Ingvi Rafn eru Suðurnesjamenn, Rúnar Dór úr Garði en búsettur í Reykjanesbæ og Ingvi Rafn úr Reykjanesbæ, búsettur í Reykjavík. 

Forritið hefur verið í þróun síðan árið 2013 og kom á markað fyrir skömmu. Stemmarann þróuðu þeir á kvöldin og um helgar og síðar kom Deloitte inn í þróunarferlið og á nú 15 prósenta hlut í fyrirtækinu. Að sögn Rúnars hefur Stemmarinn fengið góðar viðtökur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Fjöldi fyrirtækja er nota forritið á degi hverjum í fastri áskrift og mörg fyrirtæki eru með forritið á reynslu. Við höfum ekki séð neitt sambærilegt, hvorki hér á landi né annars staðar svo það gengur mjög vel að breiða út boðskapinn.“ Rúnar segir það enn mikið tíðkast við afstemmingar í bókhaldi að fólk prenti út yfirlit og stemmi svo af færslu fyrir færslu með yfirstrikunarpenna sem sé mjög tímafrekt. „Hjá fjölmörgum fyrirtækjum er töluverðum tíma eytt í afstemmingar og þegar færslufjöldinn er mikill sparar Stemmarinn mikinn tíma.“

Við þróun á Stemmaranum fékk verkefnið eina milljón króna í styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Aðspurður um nafnið Stemmarinn, þá segir Rúnar að Pálmi eigi allan heiðurinn af því. „Það tengja margir nafnið Stemmarinn við gott partý, þetta er ekki alveg það, en næstum því,“ segir Rúnar að lokum.