Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 20. júlí 2001 kl. 10:26

Smíða vönduð barnaleiktæki

Hjónin Gunnar Ingi Ingimundarson og Linda Gústafsdóttir festu kaup á fyrirtækinu Barnagaman fyrir tveimur árum. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á leiktækjum; rólum, rennibrautum, vegasöltum og fleiru fyrir börn. Að sögn Gunnars hefur fyrirtækinu verið vel tekið um allt land og fyrirtæki, fjölbýlishús, leikskólar og aðrir hafa sýnt leiktækjunum mikinn áhuga.

Spennandi tækifæri
„Við keyptum fyrirtækið af Ólafi Baldvinssyni og eiginkonu hans Margréti Héðinsdóttir í júní 1999. En þá var fyrirtækið staðsett í Kópavogi.Við sáum auglýsingu í Morgunblaðinu og athuguðum hvað þetta væri þótti okkur þetta spennandi og síðan fór allt á fullt skrið“, segir Gunnar og bætir við að þau hafi í raun tekið við fyrirtækinu í rústum því skömmu áður en kom að afhendingu brann verkstæðið. „Fólk hélt að fyrirtækið hefði brunnið til grunna og allur rekstur væri hættur þannig að við þurftum að byrja alla markaðssetningu frá grunni.“ Samkeppni er mikil á markaðnum en Barnagaman stendur vel undir henni og segir Gunnar að það hái þeim ekki neitt að vera ekki á höfuðborgarsvæðinu. „Svona fyrirtæki geta verið staðsett hvar sem er“, segir Gunnar og bætir við að Suðurnesjamenn hafi tekið framleiðslunni mjög vel.

Úti- og inni leiktæki
Fyrirtækið er staðsett að Iðavöllum 3 og er fólki velkomið að líta við og skoða framleiðsluna. Barnagaman er í samstarfi við Garðahönnun í Kópavogi sem sér um hönnun leiksvæða og lóða. En auk þess sem boðið er upp á útileiktæki býður fyrirtækið upp á nýja innilínu sem ber nafnið Óli prik sem nefnt er fyrrum eiganda Barnagamans Ólafi Baldvinssyni. Innileiktækin henta vel fyrir leikskóla, stofnanir með biðstofur eða jafnvel heimili. Að sögn leikskólastjóra eru leiktækin mjög vinsæl meðal barnanna og eflir skilning þeirra á ýmsum hugtökum. Leiktækin geta líka reynst notadrjúgar hirslur fyrir ýmisskonar dót. Öll leiktæki hjá Barnagaman eru að mestu leyti handunnin úr fyrstaflokks hráefni og eru umhverfisvæn.

Vönduð vara
Byko og Húsasmiðjan í Reykjanesbæ hafa séð um að panta inn efni fyrir Barnagaman. Þegar efniviðurinn hefur borist verkstæðinu byrjar ferlið. Þá er það sagað niður eftir móti og fræst og síðan pússað. Því næst er flöturinn grunnaður og seinna lakkaður með polyuritan lakki sem er umhverfisvænt og slitstert lakk. Fjórar umferðir af lakkinu gera það að verkum að tækin eru sterkari og endingarbetri. Að lokum er tækið sett saman og útkoman verður öruggt, skemmtilegt og vandað leiktæki.

Gaman að skipta um starfsvettvang
Gunnar og Linda eiga fjögur börn og segir Gunnar að þau séu mjög ánægð með Barnagaman. „Það er mjög spennandi fyrir þau að sjá leiktækin frá okkur hér og þar", áður en þau hjónin keyptu Barnagaman. Vann Gunnar sem járnsmiður. „Það var góð tilbreyting að skipta um starfsvettvang en reynslan úr járnsmíðinni nýtist í þessu líka.“ Eiginkona Gunnars, Linda er heimavinnandi húsmóðir auk þess sem þau reka Barnagaman.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024