Skyr fyrir biðfarþega í flugstöðinni
Íslensk hönnun og íslenskt skyr verða í fyrirrúmi á biðsvæði fyrir skiptifarþega á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í vetur. Isavia auglýsti eftir aðilum til að reka veitingasölu eða sérverslun frá byrjun desember til loka maí og voru Epal og Ísey skyr með bestu umsóknirnar að mati valnefndar.
Í verslun Epal verður í boði fjölbreytt úrval hönnunarvara þar sem sérstök áhersla verður á íslenska hönnun, en Epal hefur áður rekið hönnunarverslun í flugstöðinni. Ísey skyr mun bjóða upp á íslenskt skyr og skyrrétti og er þetta í fyrsta sinn sem rekin er veitingasala með sérstakri áherslu á íslenskt skyr í flugstöðinni. Áætlað er að Epal og Ísey skyr hefji rekstur í byrjun desember.
Epal er rótgróið fyrirtæki sem rekur fjórar aðrar verslanir í Reykjavík. Ísey skyr er vörumerki í eigu Mjólkursamsölunnar og Boozt barsins og verður veitingasalan rekin af Lagardére sem rekur nokkra aðra veitingastaði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Isavia auglýsti eftir rekstraraðilum í rýmin og lýstu átta yfir áhuga en þrír skiluðu inn formlegu tilboði. Sérstök valnefnd hafði það hlutverk að leggja mat á tilboðin. Við mat á gögnunum var tekið tillit til þeirra viðmiða sem sett voru fram í auglýsingu (https://www.kefairport.is/Um-felagid/pop-up/) og þá sérstaklega hvað varðar þjónustu við þá farþega sem einungis millilenda hér á landi á leið sinni milli heimsálfa. Við mat valnefndar á umsóknum var sérstaklega hugað að hraðri þjónustu þar sem skiptifarþegar dvelja að meðaltali í um 60 mínútur í flugstöðinni. Í valnefnd sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar.
Þetta er í annað sinn sem Isavia auglýsir eftir rekstraraðilum í tímabundin rými en fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis. Í sumar og fram til enda nóvember 2017 rekur veitingastaðurinn Sbarro tímabundna veitingasölu í rýminu. Isavia gerir ráð fyrir að bjóða rýmin til leigu að nýju næsta vor, segir í frétt frá félaginu.