Skór á alla fjölskylduna

Skóbúðin leggur áherslu á að þjóna heimafólki vel

Íbúar á svæðinu hafa alltaf getað keypt sér góða skó í gegnum árin. Þannig sérverslun hefur aldrei vantað. Fyrir margt löngu var það Erla skó sem rak einu skóverslunina í Keflavík en faðir hennar var Sigurbergur skóari. Síðar tóku Stella Baldvins og Magnúsína Guðmundsdóttir við þeirri skóverslun á Hafnargötu og ráku í mörg ár. Árið 2002 stofnuðu Hermann Helgason og Steinunn Þorsteinsdóttir, eiginkona hans, HH skó eða Skóbúðina. Dalrós Jóhannsdóttir kom svo inn í reksturinn árið 2012. Nú hafa þær stöllur Dalrós og Steinunn tekið við keflinu saman og bjóða upp á skó fyrir alla fjölskylduna en þær eru einmitt staðsettar við Hafnargötuna í Keflavík og hafa gert undanfarin sextán ár. Verslunin heitir einfaldlega Skóbúðin.
 

Gott að geta verslað heima

 
„Já, það er fínt að gera hjá okkur enda erum við með rosalega gott úrval fyrir alla fjölskylduna. Við leggjum mikla áherslu á að þjóna fólkinu vel hérna suðurfrá, svo að fólk þurfi ekki að fara til Reykjavíkur til að kaupa sér skó. Við erum einnig samkeppnishæfar við verðið innfrá sem skiptir alla miklu máli,“ segir Dalrós.
 
Þær Dalrós og Steinunn ákváðu að fara út í reksturinn saman til að auðvelda báðum reksturinn en þá geta þær skipt á milli sín dögum og átt stundum frí. Það hentar þeim vel. 
 
„Við verslum bara við íslenska heildsala og fáum gott verð hjá þeim, það skiptir miklu máli. Úrvalið hjá okkur er mikið. Við höfum einnig getað útvegað skóstærð 49 ef fólk þarf. Það er bara að koma við hjá okkur og biðja um svoleiðis sérpöntun. Við viljum þjónusta fólk eftir bestu getu, það er alltaf markmið okkar og að vera samkeppnishæfar við skóverslun í borginni. Nú er vinsælast að kaupa kuldaskó á krakkana og kuldaskó með mannbroddum fyrir fullorðna. Spariskór, mokkasíur og háir hælar fyrir konur á árshátíðina. Sætir inniskór hafa alltaf verið vinsælir. Svo vorum við að fá innleðurhanska fyrir konur og karla, “ segir Dalrós en hún stóð vaktina daginn sem blaðamaður rak inn nefið.
 

Komdu niður í bæ

 
Skóbúðin er í samtökunum Betri bær en þar eru verslanir Reykjanesbæjar að vinna saman að því að hvetja íbúa til að versla í heimabyggð.
 
„Við erum í samtökunum Betri bær sem vilja auka verslun heimafólks. Ef þú getur keypt vöruna hér heima, þá ertu líka að spara þér tíma, eldsneytiskostnað og í leiðinni ertu umhverfisvænni. Ef fólk hugsar málið þá vilja allir hafa þessa þjónustu hér heima og ekki missa hana. Við getum skapað miklu meiri verslun með öllum þeim fjölda sem býr hérna núna og bærinn verður einnig meira lifandi. Fólk þarf að gera sér grein fyrir þessu og koma niður í bæ, labba inn í búðir og sjá allt úrvalið. Það er svo margt sem fæst hér suður með sjó. Fullt af flottri gjafavöru, blóm, húsgögn, skartgripir, skór og fatnaður fyrir alla fjölskylduna, rafmagnstæki og fleira og fleira. Ég nefni bara brot af því,“ segir Dalrós og hvetur einnig bæjaryfirvöld til að efla lifandi bæ með verðugu átaki.