Skólar ehf. með 5 leikskóla og 130 starfsmenn
Fyrirtækið Skólar ehf. var stofnað árið 2000 af feðgunum Pétri Guðmundssyni og Guðmundi Péturssyni. Kjarnastarfssemi fyrirtækisins er skólarekstur og reka Skólar fimm leikskóla í dag en tveir þeirra eru á Suðurnesjum, annar í Grindavík og hinn á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hjá fyrirtækinu starfa í dag allt að 130 starfsmenn og þar af eru 97 í 100% stöðugildi.
Leikskólar Skóla ehf. eru Heilsuleikskólinn Krókur í Grindavík, Heilsuleikskólinn Kór í Kópavogi, Heilsuleikskólinn Hamravellir í Hafnarfriði, Heilsuleikskólinn Háaleiti í Reykjanesbæ og Ungbarnaleikskólinn Ársól í Reykjavík.
Framkvæmdastjóri fyrirtækisins er Guðmundur Pétursson og eru aðalskrifstofur Skóla ehf. á Ásbrú en fyrirtækið er einnig með skrifstofu á Höfðabakka 9 í Reykjavík.
Hugmyndin fæðist
Þegar fyrirtækið var stofnað í upphafi undir nafninu R.V. Ráðgjöf - verktaka ehf., þá voru þar tvær deildir, skóla- og ráðgjafardeild sem einnig var í aðstöðustjórnun. Tildrög þess að stofnuð var skóladeild hjá fyrirtækinu var sú að Pétur heimsótti MOA, Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Suðurnesja, sem þá var starfandi fyrir Suðurnesin í Reykjanesbæ, með þá hugmynd að byggja og reka lítinn leikskóla í Grindavík. Á þessum tíma vantaði sárlega leikskólapláss í Grindavík og í framhaldi sendi Pétur, með aðstoð MOA, inn bréf til Grindavíkurbæjar þar sem þessi hugmynd var viðruð.
Bæjaryfirvöld í Grindavík tóku vel í hugmyndina og gerðu í raun enn betur. Hún var útfærð í það sem mörg sveitafélög eru að gera í dag og er þetta orðinn góður valkostur fyrir sveitarfélög þegar kemur að rekstri leikskóla. Þess má geta að Grindavíkurbær var eitt af fyrstu sveitarfélögunum á landinu til að fara í svona framsækið verkefni og hafa önnur fylgt í kjölfarið. Grindavíkurbær bauð út rekstur á fjögurra deilda leikskóla í framhaldinu og urðu R.V. Ráðgjöf – verktaka ehf. hlutskarpastir og hóf fyrirtækið rekstur á leikskólanum Krók þann 5. febrúar 2001.
Með áherslu á frjálsan leik og heilsueflingu
„Ákveðið var strax í upphafi að leggja áherslu á frjálsan leik og heilsueflingu undir kjörorðinu „heilbrigð sál í hraustum líkama“. Í leit okkar að markvissum leiðum til að vinna að þessum hugmyndum okkar, þá kynntumst við starfsháttum á Heilsuleikskólanum Urðarhóli og ákváðum að kynna okkur nánar starfsaðferðir Heilsustefnunnar sem þar er í hávegum höfð,“ segir Guðmundur Pétursson, framkvæmdastjóri Skóla ehf.
Markvisst unnið að því að undirbúa og aðlaga okkur að heilsustefnunni
„Haustið 2002 keyptum við afnotarétt að Heilsubók barnsins sem að leikskólakennarar á Urðarhóli sömdu og var unnið markvisst að því að undirbúa og aðlaga okkur að Heilsustefnunni. Þann 5. nóvember 2003 var leikskólinn Krókur formlega vígður sem Heilsuleikskóli að viðstöddum heilbrigðisráðherra, menntamálaráðherra og fleiri góðum gestum við hátíðlega athöfn. Síðan þá höfum við rekið leikskólann Krók við góðan orðstír,“ segir Guðmundur.
Í janúar 2006 var fyrirtækið ÍAV Þjónusta stofnað og hefur ráðgjafardeildin fært sig þangað og er Guðmundur Pétursson jafnframt framkvæmdastjóri þess fyrirtækis. Guðmundur er reyndar nýlega tekinn við framkvæmdastjórn Skóla ehf. af Pétri syni sínum sem er sestur á skólabekk að nema guðfræði.
Skerpt á hlutverki fyrirtækisins
Nafni fyrirtækisins var breytt árið 2006 úr R.V. Ráðgjöf - verktaka ehf. yfir í Skólar ehf. til að skerpa á hlutverki fyrirtækisins. Það sama ár tók fyrirtækið þátt í útboði á leikskólanum Kór í Kópavogi. „Þetta var nýr sex deilda leikskóli og í því útboði urðum við hlutskarpastir og hófum við rekstur leikskólans þann 1. júní 2006. Jafnframt var Unnur Stefánsdóttir ráðin sem framkvæmdastjóri skólasviðs en henni var ætlað að leiða þessa framrás hjá fyrirtækinu. Unnur var hugmyndasmiður og frumkvöðull Heilsustefnunnar á Íslandi og var skólastjóri Skólatraðar (síðar Urðarhóls) þar sem Heilsustefnan var mótuð“. Unnur lést síðasta haust af völdum krabbameins en Guðmundur segir að nafni hennar verði haldið á lofti og áfram verði unnið eftir þeirri stefnu sem hún hafi þróað í um tvo áratugi. Ólöf Kristín Sívertsen hefur tekið við keflinu af Unni og mun hún, ásamt öðru fagfólki Skóla, vinna ötullega að þeirri stefnu fyrirtækisins að auka veg Heilsustefnunnar og fjölga heilsuskólum á Íslandi.
Reynt að gera betur við starfsfólkið
Sé litið til rekstrarformsins segir Guðmundur að Skólar ehf. séu í raun að gera nákvæmlega það sama og sveitarfélögin en í einkarekstri sé frjálsræðið þó að aðeins meira og reynt sé að gera betur við starfsfólkið innan þess ramma sem einkareknum leikskólum sé skapaður. Það kostar það sama að hafa börn á einkareknum leikskóla og þeim sem sveitarfélagið rekur. Leikskólagjaldið, sem foreldrar greiða með hverju barni, er líka bara toppurinn á ísjakanum, ef svo má að orði komast, því það lætur nærri að kostnaður við hvert barn á leikskóla sé nálægt einni milljón króna á ári og þaugjöld sem foreldrar greiða fyrir fulla vistun séu ekki nema þriðjungur af þeim kostnaði. Það sem upp á vanti sé greitt af viðkomandi sveitarfélagi.
Frá því að fyrirtækið var stofnað hafa eigendur þess verið að byggja undir stoðir til að geta farið í framrás í skólarekstri. Í dag eru stoðirnar traustar og er unnið í litlum og öruggum skrefum í átt að þessari framrás. Varðandi frekari útrás Skóla ehf. segir Guðmundur að nú sé beðið svara við útboði á rekstri leikskóla í Vestmannaeyjum. Þá hafi möguleiki á að setja upp heilsuleikskóla í Sandgerði verið skoðaður en þau mál verið sett á ís í upphafi kreppunnar. Þá eru Skólar ehf. að vinna að þróunarverkefninu „Vitund, virkni og vellíðan“ með tveimur skólum í Eistlandi og Lettlandi til þriggja ára með styrk frá Nordplus (norrænu menntaáætluninni) en verkefnið felst í að þróa heilsustefnunámskrá fyrir grunnskólastigið. Lágafellsskóli í Mosfellsbæ er jafnframt orðinn þátttakandi í verkefninu.
Í náinni framtíð er ætlunin að skoða með rekstur grunnskóla á Íslandi og telur Guðmundur að Skólar ehf. geti verið tilbúnir í það verkefni eftir tvö ár.
Þeir leikskólar sem Skólar ehf. reka eru:
Heilsuleikskólinn Krókur í Grindavík sem tók til starfa 5. febrúar 2001. Leikskólinn er fyrir börn frá 18 mánaða aldri til 6 ára. Það eru fjórar leikstofur á leikskólanum og geta 105 börn dvalið þar samtímis. Krókur er 684,7 m2 að stærð. Skólinn var vígður sem Heilsuleikskóli 5. nóvember 2003.
Heilsuleikskólinn Kór í Kópavogi sem tók til starfa 1. júní 2006. Leikskólinn er fyrir börn frá 18 mánaða aldri til 6 ára. Það eru sex leikstofur á leikskólanum og geta 124 börn dvalið þar samtímis. Kór er 842 m2 að stærð. Skólinn var vígður sem Heilsuleikskóli 1. desember 2008.
Heilsuleikskólinn Hamravellir í Hafnarfirði tók til starfa 1. júní 2008. Leikskólinn er fyrir börn frá 18 mánaða aldri til 6 ára. Það eru fimm leikstofur á leikskólanum og geta 120 börn dvalið þar samtímis. Hamravellir er 725,5 m2 og laus útistofa er 120 m2 að stærð. Skólinn var vígður sem Heilsuleikskóli 1. desember 2008.
Heilsuleikskólinn Háaleiti í Reykjanesbæ sem tók til starfa 1. september 2008. Leikskólinn er fyrir börn frá 22 mánaða aldri til 6 ára. Það eru þrjár leikstofur á leikskólanum og geta 80 börn dvalið þar samtímis. Háaleiti er 1090 m2 að stærð. Skólinn var vígður sem Heilsuleikskóli 11. júní 2010.
Ungbarnaleikskólinn Ársól í Reykjavík sem tók til starfa 1. desember 2008. Leikskólinn er fyrir börn frá 9 mánaða aldri til 3 ára. Það eru tvær leikstofur á leikskólanum og geta 48 börn dvalið þar samtímis. Ársól er 419 m2. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bæta við tveimur deildum í framtíðinni. Skólinn er að þróa viðmið Heilsustefnunar fyrir börn á þessum aldri, í samvinnu við Samtök heilsuleikskóla, og fær að öllum líkindum vígslu sem Heilsuleikskóli árið 2012.
Byggingar skólanna eru annað hvort í eigu sveitarfélaga eða fasteignafélaga.