Skólamatur áfram í Garðabæ
Garðabær og Skólamatur ehf. hafa undirritað samning um framleiðslu og framreiðslu á skólamat fyrir grunnskóla Garðabæjar að undangengnu útboði. Þrjú tilboð bárust í útboðið. Þau voru frá ISS Ísland ehf., Sölufélagi Garðyrkjumanna og Skólamat ehf. Það er Viðskiptablaðið sem greinir frá þessu.
Útkoma útboðsins byggir á besta hlutfalli milli verðs (60%) og gæða (40%) og kom Skólamatur ehf. best út úr báðum flokkum að því er segir í fréttatilkynningu.
Samningurinn er til þriggja ára með möguleika á að framlengja þrisvar um eitt ár eða að hámarki til sex ára. Skólamatur hefur undanfarin 12 ár þjónustað skólamötuneyti grunnskóla Garðabæjar. Undirritunin fór fram á bæjarskrifstofu Garðabæjar í gær, miðvikudag.