Skipulagsbreytingar hjá Samkaupum
Skipulagsbreytingar hafa orðið í höfuðstöðvum Samkaupa. Breytingarnar tóku gildi 1.september síðastliðinn en voru kynntar í maí. Breytingarnar eru tilkomnar vegna þróunar á starfsemi hvers sviðs, nýrra verkefna og þróunar starfsfólks í starfi innan fyrirtækisins, segir í frétt frá Samkaupum.
Þær breytingar sem tekið hafa gildi eru eftirfarandi:
Kjarnasvið Samkaupa, verslunarsvið, verður leitt af Stefáni Ragnari Guðjónssyni framkvæmdastjóra verslunarsviðs. Hann var áður framkvæmdastjóri innkaupasviðs. Þær breytingar verða helstar á sviðinu að rekstrarstjórar munu fara með forystu hvers vörumerkis og hafa þau Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Nettó, Aldís Ólöf Júlíusdóttir, rekstrarstjóri Kjörbúðarinnar og Haukur Benediktsson, rekstrarstjóri Krambúðarinnar, tekið sér stöðu sem slíkir. Þá hefur einnig sú breyting orðið á starfinu að vöruvalsnefnd hefur verið stofnuð í stað starfandi innkaupastjóra ákveðinna vöruflokka hjá félaginu.
Mannauðs- og samskiptasvið er leitt af Gunni Líf Gunnarsdóttur framkvæmdastjóra sviðsins. Hún gegnir jafnframt stöðu staðgengils Gunnars Egils Sigurðarsonar, forstjóra Samkaupa. Meginstarfsemi sviðsins felst í að hlúa að mannauð fyrirtækisins og skapa áfram eftirsóknarverðan vinnustað.
Innkaupa- og vörustýringarsvið leiðir Hallur Geir Heiðarsson framkvæmdastjóri sviðsins. Hann var áður rekstrarstjóri Nettó. Meginstarfsemi sviðsins er umsjón með erlendum innkaupum, ásamt umsjón og stýringu á vöruhúsi.
Fjármála- og rekstrarsvið er leitt af Heiði Björk Friðbjörnsdóttur framkvæmdastjóra sviðsins. Meginstarfsemi fjármálasviðs er reikningshald, upplýsingatækni, gagnadrifinn rekstur og viðskiptaþróun ásamt því að starfrækja þjónustuborð.
„Samkaup eru á spennandi vegferð sem kallar á endurnýjun í skipulagi sem rammar áherslur og stefnu um að vera framsækið verslunarfyrirtæki enn frekar inn. Við höfum lagt ríka áherslu á að starfsfólk Samkaupa fái ekki bara tækifæri til framþróunar og geti vaxið innan fyrirtækisins, heldur líka verkfærin til þess. Þessar skipulagsbreytingar endurspegla að það hafi tekist vel,” segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
Hjá Samkaupum starfa yfir 1.300 manns í tæplega 700 stöðugildum. Samkaup reka yfir 60 verslanir um land allt og eru helstu verslanamerki þeirra Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin og Iceland.