Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Skartgripasali lætur gott af sér leiða
Fimmtudagur 24. febrúar 2011 kl. 09:26

Skartgripasali lætur gott af sér leiða

Íris Mjöll Valdimarsdóttir, skartgripasali frá Selfossi verður með skartgripi til sölu á morgun í Framsóknarhúsinu í Grindavík. Hún ætlar að gefa 30% af allri sölunni til Guðrúnar Jónsdóttur Hammer sem búsett er í Grindavík og glímir við alvarleg veikindi. Markaðurinn verður opinn frá kl. 19:00 og stendur til 22:00 og eru allir hvattir til að mæta.

„Ég er að fara út um allt land að selja skartgripi og býð konum að skarta sig upp á þægilegan og ódýran máta en það er hægt að gera fyrir minna en fimm þúsund krónur,“ sagði Íris Mjöll í samtali við Víkurfréttir en hún flytur sjálf inn skartgripi. „Upphaflega ætlaði ég að koma og vera með markað eins og ég hef gert á mörgum stöðum en svo heyrði ég af þessari konu og ákvað að láta gott af mér leiða.“

Íris Mjöll segir þetta einnig til þess að fólk fari að horfa í kringum sig því það eiga margir um sárt að binda. „Ég hafði hugsað þetta eins og bleiku slaufuna. Fólk verslar skartgripi en styrkir um leið eitthvað málefni og í þessu tilfelli hana Guðrúnu.“

Guðrún Jónsdóttir Hammer er einstæð þriggja barna móðir sem hefur glímt við alvarleg veikindi í rúmt ár. Hún hefur verið í hjólastól frá því í júní á síðasta ári og þarf umönnun nánast allan sólarhringinn. Læknar fundu ekki hvað amaði að henni en fyrir ekki svo löngu síðan greindu þeir hana með krabbamein í mænugöngunum sem er mjög sjaldgæft.

Þeir sem vilja létta undir Guðrúnu og fjölskyldu er bent á söfnunarreikninginn 1193-05-250172, kt. 060573-4339, og eru öll framlög mikils metin."

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024