Sjónvarp: Ómæld tækifæri í sjávarútvegi
– innslag Sjónvarps Víkurfrétta um sjávarútvegsfyrirtækið Vísi 50 ára.
Vísir er rótgróið, kröftugt og framsækið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki þar sem öll áhersla er lögð á ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði. Fyrirtækið býr yfir góðum skipaflota útbúnum til línuveiða og rekur saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík. Afurðir Vísis eru fjölbreyttar, unnar úr fyrsta flokks hráefni, og framleiddar fyrir breiðan hóp kröfuharðra viðskiptavina vítt og breitt um heiminn. Vísir hefur í 50 ár notið mikillar gæfu og haft á að skipa metnaðarfullu og tryggu starfsfólki – mannauður fyrirtækisins er því lykillinn að farsælum rekstri þess.
Saltfiskvinnsla fyrirtækisins hefur verið starfrækt í hálfa öld að Hafnargötu 16 í Grindavík. Fyrirtækið er nú einnig að taka í notkun nýtt hátæknifrystihús að Miðgarði 3 til að mæta breyttum áherslum í greininni.
Í tilefni þess að Vísir hf. í Grindavík fagnar 50 ára afmæli sínu var fyrirtækið með glæsilega dagskrá á sjómannadaginn. Vísir bauð bæjarbúum og gestum Sjóarans síkáta að skoða fiskvinnslur fyrirtækisins undir leiðsögn eigenda. Boðið var uppá fiskismakk, afmælisköku og lifandi tónlist.
Að kvöldi sjómannadagsins voru svo minningartónleikar um Palla og Möggu [stofnendur Vísis] í Grindavíkurkirkju. Tónleikarnir voru haldnir í tilefni 50 ára afmælis Vísis hf. Þar fluttu börn þeirra Palla og Möggu hárómantísk sjómannalög af nýútgefnum diski þeirra „Lögin hans pabba“. Með þeim voru landskunnir hljóðfæraleikarar undir stjórn Vilhjálms Guðjónssonar og sérstakur gestasöngvari verður Ragnar Bjarnason. Sérstakur gestur á minningartónleikunum í Grindavíkurkirkju var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Víkurfréttir tóku hús á Vísisfólkinu þegar það tók á móti gestum í fiskvinnslustöðvum sínum á sjómannadaginn og ræddu m.a. við Pétur H. Pálsson, framkvæmastjóra Vísis hf.