Sjö milljónasti farþeginn fór um Keflavíkurflugvöll
Starfsfólk Isavia fagnaði á dögunum sjö milljónasta farþeganum sem fór um Keflavíkurflugvöll í ár er hann kom til landsins frá Belfast með Easy Jet. Þau heppnu voru Chris og Joanne Bradley og voru þau leyst út með gjöfum af verslunarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, nánar tiltekið með vörum frá Bláa Lóninu og Fríhöfninni, íslensku ullarteppi frá Rammagerðinni og bók frá Pennanum Eymundsson. Voru þau hjónin afar ánægð með móttökurnar en þau sögðust spennt að upplifa öðruvísi frí en að liggja á sólbekk við sundlaug. Þau eru á leið í ferðalag um Ísland í fjóra daga og ætla sér að fara Gullna hringinn og í Bláa Lónið auk þess sem þau vonast til þess að sjá norðurljósin.
Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar sjömilljónasti farþeginn fór um völlinn skiptist farþegafjöldinn svona: 2.253.992 brottfararfarþegar, 2.319.489 komufarþegar og 2.426.519 skiptifarþegar. Á síðasta ári náði farþegafjöldinn 6,8 milljónum en í ár er búist við að fjöldinn verði um 8,7 milljónir og því verður bæði fagnað núna þegar sjö milljóna múrnum er náð og einnig þegar fjöldinn fer yfir átta milljónir í desember næstkomandi.
Fjölgun farþega hefur verið mjög hröð um Keflavíkurflugvöll síðastliðin ár og samkvæmt farþegaspá Isavia verður fjöldinn í ár 28% meiri en árið 2016. Þá munu ríflega fjórfalt fleiri ferðast um flugvöllinn í ár en árið 2010.