Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Síminn flytur fjóra hýsingarsali í gagnaver Verne Global á Ásbrú
Þriðjudagur 16. janúar 2018 kl. 11:05

Síminn flytur fjóra hýsingarsali í gagnaver Verne Global á Ásbrú

— Síminn og Sensa í samstarf við Verne Global

Síminn, Verne Global og Sensa, þrjú leiðandi fyrirtæki hvert á sínu sviði, hafa tekið höndum saman og ætla að bjóða eina bestu net- og hýsingaraðstöðuna á Íslandi á alþjóðamarkaði. Síminn hyggst flytja fjóra af sex hýsingarsölum sínum í gagnaver Verne Global sem starfrækir nú þegar stærsta gagnaver landsins. Innan gagnaversins skapast kjörinn grundvöllur fyrir Sensa til að víkka út og bæta hýsingar- og fagþjónustu sína í síbreytilegu umhverfi gagnavera.  
 
Orri Hauksson, forstjóri Símans, segir að það verði sífellt meira aðkallandi fyrir fyrirtæki og stofnanir að vinna með og nota þau gögn sem þau búa yfir:  „Við erum að undirbúa okkur fyrir framtíðina og með samstarfinu við Verne Global styrkjum við viðskiptasambönd okkar og þar af leiðandi samstæðuna í heild sinni,“ segir hann í tilkynningu. 
 
„Starfsstöðvar okkar verða nú í fremstu röð og innan gagnavers Verne ráðum við yfir miklum sveigjanleika í hag viðskiptavina og getum tryggt þeim aðgang að öflugasta fjarskiptakerfi landsins og háhraðatengingum inn og út úr landinu. Með samstarfinu erum við einfaldlega að fjölga þeim möguleikum sem við getum boðið viðskiptavinum okkar. Við búum yfir nýjustu tækninni og erum tilbúin til að mæta síbreytilegum markaði á sviði hýsingar- og gagnavinnsluþjónustu,“ segir hann.
 
Jeff Monroe, forstjóri Verne Global, segir: „Verne Global er hinn augljósi kostur þegar kemur að stórvirkri tölvuvinnslu nú þegar fyrirtæki leita eftir bestu þjónustunni til að hámarka notkun forrita sinna. Við erum mjög ánægð með að hafa hafið samstarf við Símann og Sensa til að styrkja og breikka vöruframboð okkar enn frekar.“
 
Valgerður H. Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, segir að þetta skref veiti Sensa tækifæri til þess að bæta þjónustuna við núverandi viðskiptavini og til að stíga inn á alþjóðamarkaðinn með sérfræðiþjónustu fyrir stórvirka tölvuvinnslu, þar sem þörfin vex hratt.  
 
„Sensa er í stöðugum vexti hvort sem litið er til viðskiptavina eða tekna félagsins og hróður okkar sem  þjónustufyrirtæki í fremstu röð á sviði upplýsingatækni mun berast enn víðar með samstarfi okkar við sterkt alþjóðlegt gagnaver eins og Verne Global. Samstarfið gerir Sensa kleift að stækka og bæta núverandi viðskiptasambönd og fjölgar þeim tækifærum sem bjóðast til að afhenda nýja þjónustu á alþjóðamarkað árið 2018.“ 
 
Sensa, sem er dótturfélag Símans, er leiðandi þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni fyrir fyrirtæki og veitir þjónustu við hýsingu og rekstur sem og net-, samskipta- og öryggislausnir. Sensa starfar með Cisco, Microsoft, Paolo Alto, Fortinet, Amazon Web Services og NetApp sem og öðrum leiðandi fyrirtækjum á sínu sviði.   
 
Símann þekkum við enda hefur hann snert daglegt líf landsmanna í meira en öld.  Vöruframboð Símans felur í sér breitt úrval fjarskiptaþjónustu, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, þar með talið farsíma- og fastlínuþjónustu, nettengingar og stafrænt sjónvarp.  Síminn starfrækir einnig sína eigin sjónvarpsstöð og efnisveitu.
 
Verne Global var stofnað árið 2007 og starfrækir stærsta gagnaver Íslands. Verne Global er leiðandi fyrirtæki í stórvirkri tölvuvinnslu eða „high performance computing“ og sérhæfir sig í hámörkun öruggra og sveigjanlegra gagnaverslausna sem eru eingöngu drifin áfram af 100% endurnýjanlegri orku. Meðal viðskiptavina Verne Global eru fyrirtæki úr ýmsum atvinnugreinum sem krefjast umfangsmikillar tölvuvinnslu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024