Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Sigurjónsbakarí opnar kaffihús í Hólmgarði
    Sigurjón Héðinsson bakari í nýja bakaríinu. Hann hefur verið bakari í 29 ár og aldrei verið sprækari en einmitt nú.
  • Sigurjónsbakarí opnar kaffihús í Hólmgarði
Laugardagur 1. júlí 2017 kl. 07:00

Sigurjónsbakarí opnar kaffihús í Hólmgarði

Sigurjónsbakarí er eina bakaríið í Keflavík. Það má segja að bakaríið sé rótgróið í Hólmgarði, þar sem Sigurjón Héðinsson hefur bakað í næstum þrjá áratugi. Sigurjónsbakarí hefur nú fært sig um set og opnað á nýjum og betri stað í sama húsi.
 
Sigurjónsbakarí opnaði á dögunum stærra bakarí og kaffihús í Hólmgarði. Þar er öll framsetning á vöruframboði betri og þá hefur Sigurjónsbakarí stóraukið þjónustu við viðskiptavini. Eldri afgreiðsla bakarísins var þröng og hillupláss lítið. Nú er allt stærra og bjartara. Hægt er að setjast við borð og fá sér rjúkandi kaffi og nýtt bakkelsi. Í hádeginu er svo í boði súpa og brauð. Bakaríið er opið virka daga kl. 7 til 17 og um helgar frá kl. 8 til 17.
Sigurjón Héðinsson, bakarameistari, sagði í samtali við Víkurfréttir að hann hafi viljað opna barnvænt bakarí. Nú er góð aðstaða fyrir börnin, barnahorn og salernisaðstaða þar sem hægt er að skipta á minnstu krílunum.
 
Sigurjón bakari hefur sjálfur séð um uppbyggingu á nýja bakaríinu með góðri hjálp. Hann tók sér góðan tíma í verkið en framkvæmdir hófust fyrir einu og hálfu ári síðan.
 
Framleiðsla Sigurjónsbakarís er enn á sama stað í húsinu og gamla afgreiðslan verður tekin undir veisluþjónustu Sigurjónsbakarís. Sigurjón er stór þegar kemur að smurbrauði og snittum fyrir veislur ýmis konar. Hann fær nú betri aðstöðu til að sinna því.
 
Talsverðar framkvæmdir eru nú í Hólmgarði en þeim mun ljúka síðar á árinu. Sigurjón á von á því að stækka enn frekar þegar fram líður en hann er að festa kaup á meira rými í húsinu. Talsvert af verslunar- og þjónusturými sendur þó ennþá autt í húsinu. Fyrir nokkrum árum flutti Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins úr húsinu. Það rými stendur ennþá óbreytt frá því ríkið flutti út og bíður þess að þar verði sett upp starfsemi.
 
 

Veggurinn er klæddur með við sem kom úr umbúðum utan af nýjum ofni í bakaríinu.
 


Hægt er að setjast við borð á kaffihúsinu í bakaríinu og njóta veitinga.

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024