Ship O Hoj opnar kjöt- og fiskbúð í Reykjanesbæ
Fyrsta kjötborðið á Suðurnesjum til margra ára opnar í nýrri verslun við Hólagötu í Njarðvík eftir hálfan mánuð. Þann 4. október nk. opnar Ship O Hoj sérverslun með kjöt og fisk að Hólagötu 15, þar sem Videovík og veitingastofan Þristurinn hafa áður verið til húsa.
Gunnar Örlygsson stendur að Ship O Hoj en kjöt- og fiskbúð með sama nafni hefur verið rekin í Borgarnesi undanfarna mánuði. Í samtali við Víkurfréttir sagði Gunnar að vöruúrval í kjöt- og fiskborðinu verði meira í Reykjanesbæ en í Borgarnesi, þar sem markaðssvæðið hér sé stærra. Hins vegar verður ekki veitingastaður í tengslum við Ship O Hoj hér, eins og er í Borgarnesi.
Undanfarnar vikur hefur verið unnið að innréttingu nýju kjöt- og fiskbúðarinnar og sagðist Gunnar vera spenntur fyrir opnuninni eftir hálfan mánuð.