Serrano opnar veitingastað í Reykjanesbæ

Serrano mun opna glæsilegan veitingastað í verslunarmiðstöðinni í Krossmóa, Reykjanesbæ snemma árs 2018. Leigusamningur hefur verið undirritaður milli Serrano og fasteignafélagsins Urtusteins ehf. Húsnæðið er 176 fermetrar og verður veitingastaðurinn staðsettur þar sem Dýrabær hefur verið og mun hafa sér inngang af bílastæðum norðan megin verslunarmiðstöðvarinnar auk aðgengis úr sameign. Serrano fær rýmið afhent í lok september og hefjast þá framkvæmdir við að innrétta staðinn. Staðurinn mun svo opna snemma árs 2018, segir í frétt frá Urtusteini.

Serrano er ein vinsælasta skyndibitakeðja landsins, sem býður uppá hollan og ferskan skyndibita með mexíkósku ívafi. Serrano er íslensk keðja sem stofnuð var árið 2002. Staðurinn í Krossmóa verður tíundi veitingastaður Serrano og annar staðurinn utan höfuðborgarsvæðisins. Gera má ráð fyrir fjórum til fimm stöðugildum við staðinn.

„Það er spennandi að geta loks opnað stað í Reykjanesbæ. Við höfum fengið margar áskoranir í gegnum tíðina og því velt þessu lengi fyrir okkur. Við vildum fá aðgengilegt húsnæði á góðum stað í bænum og teljum við Krossmóa uppfylla þau skilyrði frábærlega. Við erum afskaplega spennt fyrir þessu,“ segir Emil Helgi Lárusson stofnandi og eigandi Serrano.

„Við erum mjög ánægðir með þennan samning og teljum að það felist í því viðurkenning fyrir Krossmóa og aukin tækifæri til að þjónusta viðskiptavini okkar. Við vitum að íbúar Suðurnesja þekkja þjónustu og vöruframboð Serrano og það er ánægjulegt að geta aukið framboð og þjónustu hjá okkur hér á svæðinu. Verslunarmiðstöðin var stækkuð árið 2008 og hýsir m.a. verslanir Nettó, ÁTVR, Lindex, Bílanaust, Lyfju og Dýrabæ, auk þess að vera með þjónustufyrirtæki í húsinu. Húsið er um 10.000 fermetrar og staðsett í hjarta bæjarins. Við bjóðum nýjan og glæsilegan veitingastað velkominn á Suðurnes,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri Urtusteins fasteignafélags.