Securitas opnar á Reykjanesi
Securitas opnaði formlega starfsstöð á Reykjanesi í gær en fyrirtækið er til húsa að Hafnargötu 60 þar sem Glitnir og forverar hans voru m.a. til húsa. Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, framkvæmdastjóra Securitas Reykjanesi hefur undirbúiningur að opnun staðið yfir undanfarna mánuði en tæplega 30 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu á svæðinu.
Trausti Harðarson, forstjóra Securitas sagði að það hafi verið tímabært að opna starfsstöð á Reykjanesi í ljósi vaxandi viðskipta en um eitt þúsund viðskiptavinir á Suðurnesjum nýta sér þjónustu fyrirtækisins. Trausti var bjartsýnn á framtíð Securitas á Reykjanesi þrátt fyrir erfitt efnahagsástand og verulegt atvinnuleysi á svæðinu og sagðist hlakka til að vinna með heimamönnum.
Í dag, föstudag eru húsakynni Securitas við Hafnargötu opin almenningi kl. 13-16 þar sem fólk getur kynnt sér starfsemina en öryggisráðgjafar eru m.a. á staðnum til að veita fólki ráð varðandi þjónustu sem Securitas býður upp á. Á morgun laugardag eru eldri borgarar sérstaklega velkomnir frá kl. 11 þar sem sérstök kynning verður á öryggishnöppum og virkni þeirra. Harmonikkuleikarar leika létt lög og kaffiveitingar verða í boði. Síðar á laugardag eða kl. 14 verður dagskrá fyrir börnin en þá munu Skoppa og Skrýtla heilsa upp á krakkana. Boðið verður upp á veitingar og blöðrur.
Samhliða opnun starfsstöðvarinnar á Reykjanesi er sérstakt opnunartilboð á heimavörn Securitas.
Fulltrúar lögreglu og slökkviliðs voru meðal opnunargesta Securitas ásamt viðskiptavinum og iðnaðarmönnum sem unnu við breytingarnar á húsnæðinu.
Elísa Geirsdóttir tók nokkur lög með Dísu undirleikara sínum við opnun Securitas.
Kjartan Már og Trausti með nokkrum af lykilstarfsmönnum Securitas á Reykjanesi.