Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Samstarfssamningur um rekstur Eldborgar
Föstudagur 27. desember 2002 kl. 10:25

Samstarfssamningur um rekstur Eldborgar

Hitaveita Suðurnesja hf og Bláa Lónið hf hafa gert með sér samstarfssamning um leigu og rekstur funda-, ráðstefnu- og veitingaaðstöðu auk kynningarstarfsemi í Eldborg, kynningar- og ráðstefnuhúsi Hitaveitu Suðurnesja við orkuverið í Svartsengi. Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja hf, og Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa Lónsins hf., undirrituðu samninginn föstudaginn 20. desember s.l. í Eldborg. Bláa Lónið hf mun taka við rekstri Eldborgar frá og með 1. janúar 2003. Veitingaþjónusta Bláa Lónsins hf mun þá annast rekstur, bókanir og kynningu á Eldborg.
Í Eldborg eru þrír ráðstefnusalir sem rúma allt að 300 gesti. Felliveggir eru á milli salanna og þvi auðvelt að aðskilja og sameina sali. Góð lofthæð og fallegt útsýni er úr öllum sölum Eldborgar, sem eru jafnframt meðal tæknivæddustu fundarsala landsins. Salarkynnin má einnig nota til mannfagnaða og veisluhalda af ýmsu tagi.
Í Gjánni í kjallara Eldborgar er sýning þar sem gestir geta kynnst jarðfræði Íslands á lifandi og skemmtilegan hátt.
Samningsaðilar telja að með auknu samstarfi muni nást fram rekstrarhagræði, auk þess að markaðssetning þessarar glæsilegu ráðstefnu-, funda- og veitingaaðstöðu efli Reykjanes enn frekar, sem vinsælan áfangastað innlendra jafnt sem erlendra gesta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024