Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Samstarfssamningur Martaks og Matís
Fimmtudagur 11. febrúar 2016 kl. 06:10

Samstarfssamningur Martaks og Matís

Martak í Grindavík og Matís hafa undirritað stefnumarkandi samning um samstarf fyrirtækjanna um þróun framleiðslulausna sem auka hagkvæmi og nýtingu hráefnis og spara orku og vatn.
 
 
Martak hefur sérhæft sig í lausnum fyrir matvælavinnslur, einkum rækjuvinnslu. Með samningnum við Matís er ætlunin að efla þekkingu við vinnslu sjávarafurða, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Um er að ræða stefnumarkandi rammasamning sem gengur út á að auka nýtingu hráefnis, lengja líftíma framleiddrar vöru, auka nýtingu á því sem til fellur við framleiðslu, svokölluðu aukahráefni. Þá er einnig ætlunin að draga úr orku- og vatnsþörf á öllum stigum framleiðslunnar. Að mati Martaks og Matís eru mikil tækifæri fólgin í því að bæta núverandi vinnsluferla við vinnslu sjávarafurða og minnka þannig umhverfisáhrif framleiðslunnar. „Sem metnaðarfullt fyrirtæki sem horfir stöðugt til þess að bæta eigin framleiðslu og stuðla að hagkvæmni og nýtingu viðskiptavina okkar teljum við afar mikilvægt að fá aðgang að þeirri þekkingu og fagmennsku sem Matís býr yfir,“ segir Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri Martaks.
 
Matís mun verða Martaki innan handar varðandi skrif á umsóknum til tækni-, vísinda- og nýsköpunarsjóða og mun Matís veita ráðgjöf, meðal annars um það í hvaða sjóðum er álitlegast að sækja um og hvernig best er að standa að þeim umsóknum. „Fyrir okkur er mikilvægt að tengja saman þekkingu og framleiðslu til að stuðla að framþróun í matvælaiðnaði. Eitt af markmiðum okkar er að efla nýsköpun í matvælaiðnaði og því ómetanlegt að vinna með framsæknu fyrirtæki á sviði framleiðslulausna í matvælaiðnaði,“ segir Sveinn Margeisson, forstjóri Matís.
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024