Samstarf Samkaupa og Öryggismiðstöðvarinnar um Kaupmannsskóla
Samkaup hefur á undanförnum misserum lagt aukna áherslu á þjálfun og fræðslu til starfsmanna sinna. Fyrirtækið endurnýjaði á dögunum samning við Öryggismiðstöðina um ráðgjöf og fræðslu vegna öryggismála.
„Við höfum átt farsælt og árangursríkt samstarf við Öryggismiðstöðina. Samstarfið hefur meðal annars falist í því að haldin eru regluleg námskeið fyrir starfsmenn um mikilvæg atriði er varða öryggismál. Við ætlum að byggja áfram á þessu góða samstarfi og efla enn frekar,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstöðumaður verslunarsviðs hjá Samkaupum.
Til að ramma enn betur inn áherslu Samkaupa á þjálfun og fræðslu er fyrirtækið að setja af stað sérstakan Kaupmannsskóla fyrir starfsmenn sína. Samningur fyrirtækjanna felur í sér að Öryggismiðstöðin leggur Samkaupum verulega lið í hinum nýja Kaupmannsskóla meðal annars með námskeiðahaldi fyrir starfsmenn hvað varðar viðbrögð við ógnandi hegðun og annarri vá, forvörnum og skyndihjálp.