Samkeppni um farþega í flugrútuna
Samkeppni í farþegaflutningum milli Reykjavikur og Keflavíkurflugvallar hefst í lok mars næstkomandi. Þá byrjar Iceland Excursions að aka með farþega á þessari leið, í allt að 10 ferðum á dag.
Kynnisferðir höfðu um árabil sérleyfi á þessari leið, en Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum tóku það yfir í formi einkaleyfis fyrir nokkrum árum og sömdu við Kynnisferðir um að sinna akstrinum áfram.
Við breytinguna úr sérleyfi í einkaleyfi opnaðist möguleikinn á samkeppni á þessari leið þar sem einkaleyfið gildir aðeins um farþegaflutninga innan viðkomandi sveitarfélaga en ekki milli sveitarfélaga, eins og á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
„Við erum búnir að skoða þetta mál lengi,“ segir Þórir Garðarsson, sölu- og markaðstjóri Iceland Excursions. „En þetta er ekki einföld þjónusta og því fylgir mikil ábyrgð tæknilega og fjárhagsleg að setja upp áætlun um jafn viðamikla þjónustu. Kaupa þarf bíla og þjálfa mannskap og fjárfesta í miklu kynningarstarfi. En við höfum mikla trú á að þetta sé réttur tímapunktur vegna sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna hingað til lands.“
Þessi nýja þjónusta hefur að undanförnu verið kynnt samstarfsaðilum í ferðaþjónustu og samið hefur verið um akstur við fjölda söluaðila Íslandsferða.
„Viðbrögðin er miklu betri en við áttum von á. Markaðurinn vill greinilega samkeppni í þessari þjónustu líkt og á öðrum sviðum. Í kynningarstarfi okkar höfum við notið styrkleika viðskiptasérleyfis okkar Gray Line en það er stærsta vörumerki í heiminum á sviði skoðunar- og pakkaferða, þekkt fyrir gæði og afhendingaröryggi,“ segir Þórir.
Frá mars og fram til loka maí býður Iceland Excursions upp á sex ferðir á dag milli Reykjavikur og Keflavíkurflugvallar. Frá 1. júní fram í miðjan september verða farnar 10 ferðir á dag. Reiknað er með að ferðir verði jafnvel fleiri þegar áætlanir allra flugfélaga liggja fyrir.
Frá Reykjavík verður ekið frá Umferðamiðstöð Iceland Excursions Allrahanda að Hafnarstræti 20 og farþegar verða sóttir á öll helstu hótel og gistiheimili á höfuðborgarsvæðinu. Endanlega staðsetning í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar liggur ekki fyrir, en félagið hefur átt í viðræðum við stjórnendur flugstöðvarinnar um aðstöðu fyrir áætlunarbílinn.
Allar tímaáætlanir og bókanir verða á heimasíðunni www.airportexpress.is auk heimasíðu félagsins www.grayline.is
(Fréttatilkynning)