Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Samkaup stærst í Suðurkjördæmi
Fimmtudagur 6. júlí 2006 kl. 14:35

Samkaup stærst í Suðurkjördæmi

Samkaup hf. er í hópi  stærstu verslunarkeðja á Íslandi og er þrítugasta stærsta fyrirtæki á Íslandi, það stærsta á Reykjanesi og í Suðurkjördæmi. Stærsti eigandi fyrirtækisins og stofnandi er Kaupfélag Suðurnesja en það fagnaði 60 ára afmæli á sl. ári. Samkaup h.f. sem rekur verslanir undir nöfnunum Kaskó, Nettó, Samkaup úrval og Samkaup strax er í harðri baráttu á matvörummarkaði m.a. við markaðsráðandi fyrirtæki sem ræður yfir 55-60% markaðshlutdeild. Þrátt fyrir hörkusamkeppni sem náði ákveðnu hámarki fyrir nokkrum mánuðum er Guðjón Stefánsson, framkvæmdastjóri Samkaupa hf. þokkalega bjartsýnn á stöðu mála fyrir Samkaup. 

 

Miðað við úttekt Frjálsrar Verslunar á síðasta ári er Samkaup hf. orðið 30. stærsta fyrirtæki landsins og það stærsta í Suðurkjördæmi. Er þessi vöxtur samkvæmt áætlun og ætlið þið ykkur að stækka enn frekar?

Já, við höfum fullan hug á því að stækka og efla félagið áfram. En, undanfarin ár hefur fyrirtækið vaxið nokkuð hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta hefur þó auðvitað gengið nokkuð í bylgjum, sum árin verið lítið um að vera og önnur meira. Á sl. ári bættust t.d. 9 nýjar rekstrareiningar við á vestur og norðurlandi. Við opnuðum m.a. nýja verslun á Akureyri sem er fyrsta verslun okkar sem opin er allan sólahringinn. 

 

Hvað er helst á prjónunum hjá ykkur um þessar mundir? 

Það er ýmislegt í gangi þetta árið, sumt er komið af stað annað í undirbúningi eins og gengur. Við erum ásamt Sparisjóðnum í Keflavík að byggja „þjónustumiðstöð“ í Garði sem við áætlum að verði tilbúin um eða eftir næstu áramót. Þetta er framkvæmd sem löngu var orðin  tímabær og mun bæta verulega aðstöðu okkar þar. Á þessu ári munum  við fara af stað með byggingu í Grundarfirði sem einnig mun hýsa fleiri aðila en okkar verslun. Við erum svo að vinna að því að bæta okkar aðstöðu á Bifröst í Borgarfirði og skoðum þar möguleika á nýbyggingu. En í háskólaþorpinu munu næsta vetur búa um 800 manns. Við erum svo að byggja verslunarhúsnæði í nýju hverfi í Kópavogi sem verður tilbúið um n.k. áramót. Fleiri framkvæmdir eru svo á undirbúningsstigi sem ekki er rétt að vera að tíunda hér og nú. 

 

Nú eru þið eingöngu í matvöruviðskiptum og í vetur og síðastliðið ár var gríðarleg samkeppni í lágvöruverðsverslun. Er sú stóra samkeppni og læti búin? 

Nei, samkeppnin er auðvitað alls ekki búin og mun verða áfram. Það er hinsvegar mín skoðun að á sl. ári hafi á engan hátt verið um eðlilega samkeppni að ræða, miklu frekar hafi þetta verið skipuleg undirverðlagning til þess að ryðja markaðinn og draga úr samkeppni til lengri tíma litið. Líklega varð tekjutap aðila á matvörumarkaðnum vegna þessa 2-3 milljarðar. 

 

Sérðu fyrir þér frekari breytingar á matvörumarkaði á næstunni; er verðlag að lækka enn frekar eða hækka í verðbólgu eða sjáum við breytingar á þjónustu og vöruvali og opnunartíma?

Mín skoðun er sú að matvörumarkaðurinn muni áfram þróast nokkuð í takt við það sem er að gerast í Evrópu, verð muni lækka og samhliða muni afgreiðslutími minni verslana lengjast. Með auknum hlut lágverðsbúða muni þjónusta frekar minnka en hitt. Núna til skamms tíma munu hinsvegar verða nokkrar verðhækkanir vegna gengisbreytinga. Það sem er svo mikilvægast er að ná fram verðlækkunum á innfluttum vörum þannig að Ísland verði ekki til frambúðar verðlagt í hæsta verðflokki af heimsframleiðendum.   Til þess að það megi takast þurfa innflytjendur að vinna mjög einarðlega sem málsvarar Íslands miklu frekar en bara umboðsmenn erlendra auðfyrirtækja. Innflytjendur þurfa að verða kröfuharðari fyrir Íslands hönd. Stjórnvöld þurfa svo að sjálfsögðu að laga til í vörugjöldum og verndartollum oþh. álögum. Til þess að verðlækkanir nái svo til neytenda þarf að tryggja samkeppni á markaði. Kannski verður það málið sem flækist mest fyrir mönnum í þeirri stöðu sem er á markaðnum hér, þ.e. að einn markaðsráðandi aðili er með 55-60% af matvörumarkaðnum og tveir með samanlagt ca. 80%. Að mínu mati mun Samkaup h.f. hafa hér stóru hlutverki að gegna varðandi það að halda uppi samkeppni á þessum markaði í framtíðinni.Einungis með því að Samkaup h.f. stækki og eflist verður samkeppni tryggð og frekari fákeppni forðað. Það getur einfaldlega aldrei orðið virk samkeppni þar sem einn aðili er allsráðandi. 

 

Hvað með þróun efnahagsmála og verðbólgu. Hvernig lítur þú á þessa þróun?

Ég reikna fastlega með allnokkurri verðbólgu næstu mánuði vegna gengisáhrifa t.d. á bensín, olíur, ferðalög og ýmsar neysluvörur eins og matvörur. Það er þó víða innistæða frá sl. ári á þeim þáttum þar sem styrking gengisins skilaði sér ekki út með lækkandi verði og þurfa menn að vera mjög á varðbergi gagnvart því að innheimta þær lækkanir nú á móti  hækkunum sem skella á vegna veikingar krónunnar. Mér kæmi heldur ekki á óvart þó að húsnæðismarkaðurinn fari lækkandi og hafi þar með áhrif til lækkunar á vísitölu. Já, ég býst við allnokkurri verðbólgu fram eftir hausti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024