Samkaup og Spotify eigast við í norrænu einvígi
Samkaup valin númer eitt á Íslandi í fjölbreytni, kominn áfram í Norðurlandakeppni
Samkaup hafa unnið til norrænu Blaze Inclusion jafnréttisverðlaunanna, sem veitt eru af norsku samtökunum Diversify, í flokki íslenskra fyrirtækja fyrir fjölbreytni (e. synergist). Verðlaununum er ætlað að efla einstaklinga og fyrirtæki sem vinna markvisst að því stuðla að fjölbreytni og jafnrétti innan fyrirtækja sinna.
Keppa við Spotify
Samkaup sigraði fjögur önnur íslensk fyrirtæki í flokknum um fjölbreytni, þ.á m. Marel og Bláa lónið, og etja nú kappi við fyrirtæki frá fjórum norrænum þjóðum, þ.á m. hið sænska Spotify. Kosning er hafin og stendur yfir til 3. ágúst. Tilkynnt verður hver ber sigur úr býtum á verðlaunahátíð í Osló þann 27. ágúst næstkomandi. Hægt er að taka þátt í kosningunni á vef samtakanna Diversify (diversify.no).
Vilja vera besti vinnustaðurinn fyrir starfsfólk í verslun
Samkaup hafa sett sér það markmið að verða besti vinnustaður fyrir starfsfólk í verslun hér á landi. Þess má geta að Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa, var í vetur valin millistjórnandi ársins hjá Stjórnvísi auk þess sem Samkaup hlutu Menntaverðlaun atvinnulífsins.
Jafnréttisátak hlaut verðlaun HÍ og SA
Samkaup hrinti í fyrra úr vör jafnréttisátakinu Jafnrétti fyrir alla – Samkaup alla leið, þar sem markmiðið var að gefa starfsfólki jöfn tækifæri og meta það að verðleikum sínum. Átakið er unnið í samvinnu við Samtökin ‘78, Þroskahjálp og Mirru, rannsókna- og fræðslusetur fyrir erlent starfsfólk. Í því felst að bæta ferla, standa fyrir fræðslufyrirlestrum fyrir starfsfólk í verslunum Samkaupa um allt land og bjóða upp á rafræna fræðslu á vegum samtakanna þriggja og vinnufundi með stjórnendum. Sérstök áhersla er lögð á að stjórnendur sýni gott fordæmi fyrir starfsfólk sitt og taki málefni jafnréttis til gagngerrar skoðunar með starfsmannahópnum á hverjum stað. Fyrir átakið hlutu Samkaup í lok síðasta árs tvenn hvatningarverðlaun jafnréttis sem Samtök atvinnulífsins og Háskóli Íslands standa að, annars vegar í flokki fjölmenningar og hins vegar í flokki fötlunar.
Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa: „Það er afskaplega gleðilegt að hljóta þessi verðlaun í íslenska flokknum og vonandi sigrum við í stóru, norrænu keppninni. Við hjá Samkaupum brennum fyrir jafnréttismálum og verðlaunin eru viðurkenning fyrir okkar miklu vinnu. Við lítum þó ekki svo á að þeirri vinnu sé lokið því það þarf statt og stöðugt að gæta að því að staða starfsfólks okkar sé jöfn, óháð kyni, kynhneigð, uppruna o.fl. Við eigum líkt og flest önnur fyrirtæki enn nokkuð í land í þeim efnum.“
Um Samkaup:
Samkaup reka yfir 60 verslanir víðsvegar um landið undir vörumerkjunum Nettó, Krambúðin, Kjörbúðin, Iceland og Samkaup Strax. Mikil fjölbreytni einkennir starfsmannahópinn hjá Samkaupum en alls starfa 1.500 manns hjá fyrirtækinu í fullu starfi eða hlutastarfi.