Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Föstudagur 29. desember 2000 kl. 22:00

Samkaup og Matbær ehf. verða þriðja stóra aflið á matvörumarkaði

Stjórnir fyrirtækjanna Samkaupa hf. og Matbæjar ehf. (KEA) hafa ákveðið að leggja það til á hluthafafundi félaganna að frá og með 1. janúar næstkomandi verði rekstur Samkaupa hf. og Matbæjar ehf. sameinaður. Hið nýja félag verður þriðja stærsta matvöruverslunarkeðja landsins. Ársvelta hins sameinaða félags verður rúmlega 8 milljarðar króna og starfsmenn um 500 talsins. Eignarhlutir hvors félags um sig verða jafnir eftir sameininguna. Þeir Guðjón Stefánsson framkvæmdastjóri Samkaupa og Sigmundur E. Ófeigsson framkvæmdastjóri Matbæjar munu stýra sameinuðu félagi. Matbær er alfarið í eigu Kaupfélags Eyfirðinga en eigendur Samkaupa eru 300 hluthafar, auk Kaupfélags Suðurnesja.
Hvort fyrirtæki um sig rekur nú þrjár verslunarkeðjur. Innan þeirra vébanda eru 26 verslanir um allt land. Verslanir Matbæjar eru flestar á Norðurlandi og Suð-vesturhorni landsins. Verslanir Samkaupa eru flestar á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum.
Næsta ár verða Samkaup og Matbær með aðskilinn rekstur en sameiginlegt eignarhald. Stefnt er að endanlegum samruna á árinu. Félögin hafa á undanförnum mánuðum unnið sameiginlega að ýmsum verkefnum svo sem innkaupum. Nú um áramótin verða öll innkaupa- og markaðsmál sameiginleg. Upplýsingakerfi félaganna verða sameinuð á næstu mánuðum og hagrætt verður á ýmsum sviðum í stjórnun þeirra. Hagkvæmni verður leitað á sem flestum sviðum til þess að efla og bæta reksturinn og gera hann samkeppnishæfari.
Hið nýja fyrirtæki mun leggja áherslu á markaðssókn á höfuðborgarsvæðinu jafnframt því að standa vörð um verslun í sínum heimabyggðum.
Það eru þeir Halldór Jóhannsson hjá Landsbankanum - Fjárfestingarbanka og Ólafur Nilson hjá KPMG sem hafa haft faglega umsjón með sameiningarferlinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024