Samkaup hf. velti 22,1 milljarði 2014
– hagnaður tæpar 278 milljónir eftir skatta
Aðalfundur Samkaupa var haldinn 18. mars síðastliðinn. Velta Samkaupa var tæplega 22,1 milljarðar á árinu 2014 og jókst um tæp 3,6% frá fyrra ári. Hagnaður félagsins af reglulegri starfsemi eftir skatta var tæpar 278 milljónir. Í nóvember 2014 var hlutur félagsins í Búri ehf. seldur og að teknu tilliti til söluhagnaðar og annarra áhrifa af endurskipulagningu í rekstri Samkaupa, var hagnaður ársins rúmar 1.264 milljónir króna.
Samkaup reka 47 verslanir undir merkjum Nettó, Kaskó, Samkaup úrval og Samkaup strax, verslanirnar eru á 33 stöðum um allt land. Starfsmenn félagsins á árinu 2014 voru 865 í 477 stöðugildum.
Hluthafar Samkaupa voru 177 í lok árs 2014. Kaupfélag Suðurnesja ásamt dótturfélögum átti 62,1% hlut, Stafir lífeyrissjóður átti 14,5% hlut og Kaupfélag Borgfirðinga átti 13%. Aðrir hluthafar áttu minna en 10% hver um sig.
Verslanir Samkaupa voru margar hverjar reknar áður af kaupfélögum. Samkaup hafa gert samninga við öll kaupfélög á starfssvæðum verslana félagsins, um afsláttarkjör fyrir félagsmenn kaupfélaga. Í dag notfæra sér meira en 30.000 félagar kaupfélaga um allt land þessi afsláttarkjör í verslunum Samkaupa.
Á aðalfundi Samkaupa voru eftirtaldir kosnir í stjórn félagsins:
Skúli Skúlason, formaður Reykjanesbæ
Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Reykjavík
Margrét Katrín Erlingsdóttir, Árborg
Guðsteinn Einarsson, Borgarbyggð
Halldór Jóhannsson, Akureyri
Framkvæmdastjóri Samkaupa er Ómar Valdimarsson. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Reykjanesbæ.