Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Miðvikudagur 30. janúar 2002 kl. 14:23

Samkaup hefur verið að lækka vöruverð frá áramótum

Undanfarið hafa verslanir og þjónustuaðilar verið að lækka hjá sér vöruverð til að halda verðbólgudraugnum niðri, lækkanirnar hafa verið á bilinu 2-3% og neytendur sækja jafnvel frekar í þær búðir sem hafa auglýst lækkun en hinar. Verð í búðum er hins vegar mjögt misjafnt, og þannig getur búð sem er með verð í hærri kantinum lækkað en samt verið dýrari en þær búðir sem selja sínar vörur á lægra verði að jafnaði. Samkaupsbúðirnar hafa tilheyrt þessum síðari hópi, sem hafa alla jafna selt vörur sínar á lægra verði en margir keppinautarnir. Á síðasta ári hækkaði Samkaup vörur sínar minnst af öllum matvöruverslunum og hafa forráðamenn búðanna unnið að því síðan frá áramótum að lækka vöruverð.
Kristján Friðjónsson, verslunarstjóri Samkaupa í Njarðvík, sagði að síðast í morgun hefði verð á grænmeti verið lækkað og verð á svínakjöti var einnig lækkað um3- 8%. “Viðskiptavinir okkar eru meðvitaðir um verðið og verðlagið en taka kannski ekki eins vel eftir þegar vara lækkar og þegar hún hækkar. Við finnum öll fyrir þessu rauða striki og við höfum verið mjög varkárir í hækkunum", sagði Kristján.
Skúli Skúlason, starfsmannastjóri Samkaupa tekur í sama streng. “Við sögðum upp öllum samningum við birgja nú um áramótin og erum að funda stíft með heildsölum til að ná góðu innkaupsverði fyrir viðskiptavini okkar til frambúðar. Við ætlum að ná verðinu niður og neytendur munu njóta þess, við erum ekki í auglýsingabralli til að fá prik, heldur vinnum þetta faglega. Við vorum á fundi með ASÍ í gærkveldi og það var bæði gagnlegur og ánægjulegur fundur, við hjá Samkaupum erum tilbúin til að leggja okkar af mörkum til að tryggja stöðugleikann í landinu", sagði Skúli Skúlason að lokum.






Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024