Samkaup fjölgar verslunum í Kópavogi
Samkaup h.f. opnar Strax verslun í dag að Búðakór 1 í Kópavogi. Um leið mun Kökumeistarinn opna þar bakarí en Fiskisaga og Gallerí Kjöt munu opna þar verslun fljótlega. Í tilefni opnunarinnar verða tilboð og veitingar í boði alla helgina. Þetta er þriðja verslun Samkaupa í Kópavogi en fyrir eru Nettó verslun á Salarvegi og Samkaup Strax verslun í Hófgerði.
,,Við rekum samtals 7 verslanir á höfuðborgarsvæðinu og hyggjumst opna fleiri á næstu misserum til þess að styrkja okkar stöðu á þessu fjölmennasta markaðssvæði landsins” segir Sturla Eðvarðsson, framkvæmdastjóri Samkaupa h.f.
Nýja verslunin í Búðakór mun fyrst og fremst þjóna þeim hverfum sem næst henni liggja þ.e. Búðahverfi, Salahverfi, Lindahverfi og Hvarfahverfi en samtals búa nú á fjórða þúsund íbúar í þessum hverfum samtals og fer fjölgandi. Verslunarstjóri í hinni nýju Samkaup Strax verslun í Búðakór er Þórhalla Grétarsdóttir.
Samkaup hf. rekur nú 40 verslanir um allt land og starfa um 750 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Nýjasta verslunin í Suðurnesjum var opnuð í Garði fyrir skemmstu.
Mynd: Samkaup er í stöðugri sókn. Nýlega var þessi glæsilega verslun Samkaupa opnuð í Garði og í dag bættist við verslun í Kópavogi.
VF-mynd:elg