Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Samkaup fá ákvæð viðbrögð um samstöðu gegn verðhækkunum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 17. janúar 2024 kl. 10:35

Samkaup fá ákvæð viðbrögð um samstöðu gegn verðhækkunum

„Efnahagslegur stöðugleiki er það sem skiptir heimilin í landinu máli. Við hjá Samkaupum teljum mikilvægt að eiga samtal við birgja um það hvernig hægt er að berjast gegn þeim óhóflegum hækkunum á vöruverði sem við höfum verið að sjá,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa. 

Samkaup telja mikilvægt að sporna gegn frekari verðhækkunum og hafa fengið jákvæð viðbrögð frá ýmsum samstarfsaðilum um aðgerðir gegn verðbólgu. Á næstu misserum munu Samkaup halda áfram samtali við alla sína birgja með það að markmiði að verðlækkanir skili sér í vöruverði til almennings. Þá mun Samkaup hætta sölu á þeim vörum sem hækkað hafa óhóflega og velja frekar ódýrari sambærilegar vörur,“ segir í frétt frá Samkaupum.

„Það er brýnt að allir aðilar í virðiskeðjunni axli ábyrgð, sýni samstöðu og vinni saman að því að stöðva óhóflegar verðhækkanir. Samkaup munu því fylgja þeirri stefnu að taka úr sölu þær vörur sem hækka óhóflega mikið,“ segir Gunnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Að sögn Gunnars hefur Samkaup svarað ákalli Samtaka Atvinnulífsins og breiðfylkingu stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum og mun leggja sitt af mörkum til að halda aftur af álagningu á dagvörumarkaði. Hækkanir á aðföngum hafa verið stór þáttur í verðbólgunni og einn sá helsti og fyrsti sem heimili og fyrirtæki í landinu finna fyrir. Eitt brýnasta hagsmunamál líðandi stundar er fyrirsjáanleiki, verðstöðugleiki og lækkun vaxta fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Samkaup sendu fyrir helgi bréf á alla sína birgja þar sem þeir voru hvattir til að falla frá fyrirhuguðum verðhækkunum. Nú þegar hafa stórir aðilar á mjólkur og drykkjarmarkaði svarað kallinu og ýmist hætt alfarið við tilkynntar verðhækkanir eða lækkað umtalsvert. Samkaup eru vongóð að fleiri birgjar fylgi þessu fordæmi og leggi sitt af mörkum.

Samtal og ábyrgð gegn verðhækkunum 

Matvöruverð er á niðurleið í Evrópu og flestir greiningaraðilar spá áframhaldandi lækkunum á þessu ári. Aðfangaverð á Íslandi hefur ekki fylgt sömu þróun og á meðan aðföng sem Samkaup flytja inn erlendis frá lækkar eða stendur í stað hafa fjölmargir innlendir birgjar hækkað sitt verð frá áramótum. Samkaup vilja sporna gegn þessum hækkunum og telja opið og heiðarlegt samtal við birgja skipta sköpum.

„Viðbrögðin sem okkur hafa þegar borist þar sem verðhækkanir eru dregnar til baka eru fordæmisgefandi og setja vonandi þrýsting á að fleiri fylgi í kjölfarið. Á sama tíma erum við alltaf að leita leiða til þess að bæta okkur og höfum til að mynda verið í samstarfi við erlenda birgja til þess að auka úrval á ódýrari vörum í eins mörgum flokkum og hægt er, dregið úr rekstrarkostnaði með því að breyta opnunartímum, lokað verslunum og breytt um rekstrarform, ásamt því að lækka verð á vörum þar sem það hefur verið hægt,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.

Samkaup hafna óhóflegum verðhækkunum

„Við ætlum að standa með viðskiptavinum okkar og tryggja þeim vörur á eins sanngjörnu verði og hægt er. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að standa vörð um hag viðskiptavina og veita verðbólgunni mótspyrnu. Það gæti verið að einhverjar vörur hjá okkur detti úr sölu ef verðið á þeim hækkar of mikið. En við bregðumst þá fljótt við og finnum aðra sambærilega vöru í staðinn,“ segir Gunnar.