Samkaup: Breytingar á rekstri ekki fyrirhugaðar
Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri Samkaupa hf. eftir að Kaupfélag Suðurnesja keypti eignarhluta Kaldbaks hf. í Samkaupum. Eftir kaupin á Kaupfélag Suðurnesja um 97% hlutafjár. Að sögn Skúla Skúlasonar hjá Samkaup hf. verða áfram reknar skrifstofur á Akureyri. Skúli segir breytingarnar á eignarhaldi hafi ekki átt sér langan aðdraganda. Hann sagði að fljótlega verði boðað til hluthafafundar þar sem ný stjórn félagsins verði kosin.
Samkaup hf. var stofnað 1998 utan um verslunarrekstur Kaupfélags Suðurnesja. Samkaup hf. og Matbær ehf. , félag um verslunarrekstur Kaupfélags Eyfirðinga, sameinuðust svo árið 2001. Kaupfélag Suðurnesja og KEA , síðar Kaldbakur h.f. hafa verið aðaleigendur félagsins þar til nú að Kaldbakur hefur selt hlut sinn.
Samkaup h.f. reka nú 25 verslanir víða um land auk kostverslunar á Akureyri og kjötvinnslu í Njarðvík.