Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Samið um upplýsinga-  og landshlutamiðstöð fyrir Reykjanes
Mánudagur 3. júní 2013 kl. 10:04

Samið um upplýsinga- og landshlutamiðstöð fyrir Reykjanes

Markaðsstofa Reykjaness hefur ákveðið að semja við Laufeyju Kristjánsdóttur sem rekur Bergnet ehf við Hafnargötuna í Reykjanesbæ til að taka að sér rekstur upplýsingamiðstöðvar eða landshlutamiðstöðvar fyrir Reykjanesskagann. Upplýsingamiðstöðin mun sinna markaðssetningu í samvinnu við Markaðsstofuna og meðal annarra verkefna mun hún sjá um alla almenna upplýsingagjöf til ferðamanna og gesta svæðisins, halda utan um og uppfæra þjónustulista fyrir Reykjanesið, annast bæklingadreifingu, halda utanum viðburðadagatal og vefsíðuna www.visitreykjanes.is.
Laufey opnaði upplýsingaþjónustu á Hafnargötunni sumarið 2012 og hefur sinnt almennri upplýsingagjöf til ferðamanna sl. ár en rekur jafnframt umboð fyrir Happdrætti Háskóla Íslands, SÍBS, Heimsferðir o.fl.

Ferðaþjónusta er mikilvæg fyrir Reykjanes og hefur svæðið upp á margt að bjóða fyrir íbúa sveitarfélaganna, gesti þeirra eða ferðamenn, innlenda og erlenda. Opnun landshlutamiðstöðvar í Hafnargötunni er einn liður í því að efla þjónustu við ferðamenn og ferðaþjónustuaðila á Reykjanesi en fyrirhuguð er enn frekari uppbygging upplýsingamiðlunar í samstarfi við sveitarfélögin á Reykjanesi, Ferðamálasamtök Suðurnesja, ferðaþjónustuaðila og Reykjanes jarðvang. Að sögn Þuríðar Aradóttur, verkefnastjóra Markaðsstofu Reykjaness, eru miklar vonir bundnar við samstarfið sem mun efla upplýsingagjöf og markaðssetningu á Reykjanesi. „Við erum ánægð með að fá Laufeyu til liðs við okkur og hlökkum til að takast á við komandi vertíð í samvinnu við ferðaþjónustuaðila á svæðinu,“ segir Þuríður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024