Sameina krafta sína og opna veitingastaðinn Jia Jia 67
Eigendur matsölustaðanna Jia Jia og Pizza 67 hafa sameinað krafta sína og stefna á að opna nætursöluna Jia Jia 67 á föstudaginn. Þar geta svangir satt hungur sitt eftir gott kvöld á skemmtistöðum bæjarins.
„Þessi hugmynd hefur blundað í okkur lengi, upphaflega hugsuðum við um veitingastað þar fjölbreyttur matseðill væri á boðstólnum en ákváðum að yfirfæra hana með þeim hætti að bjóða upp á nætursölu. Hér getur vinahópur komið við og fengið sér eitthvað í svanginn og flestir geta fundið sér eitthvað við hæfi. En með þessu viljum við auka þjónustu við bæjarbúa “ sagði Jóhann Stefánsson eigandi Pizza 67.
„Við erum búnir að vera félagar lengi og því kjörið að sameina veitingastaði okkar með þessum hætti,“ sagði Jens Beining Jia eigandi Jia Jia. „Svo höfum við um 20 ára reynslu á bakvið okkur og því tilvalið að prufa eitthvað nýtt, en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér varðandi frekara samstarf. “ bætti Jóhann við.
Veitingarnar verða afgreiddar í gegnum lúgu Pizza 67 og boðið verður upp á pizzur, hamborgara, vorrúllur og núðlur svo eitthvað sé talið. Staðurinn verður opinn um helgar frá klukkan 23:00 til 6:30.
VF-mynd/Margrét