Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Salt er ekki bara salt
Egill Þór Einarsson og Helgi Sigurjónsson eru efnaverkfræðingar hjá Arctic Sea Minerals sem hafa þróað heilsusaltið LifeSalt.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 15. ágúst 2019 kl. 12:24

Salt er ekki bara salt

Egill Þórir Einarsson er einn af aðaleigendum Arctic Sea Minerals, sem framleiðir heilsusalt af bestu gerð, að sögn hans sjálfs en hann ásamt Helga Sigurjónssyni, sem báðir eru efnaverkfræðingar, hafa þróað og eru byrjaðir að framleiða einstakt heilsusalt til manneldis. Sjálfur er hann 71 árs hlaupari sem stefnir á Reykjavíkurmaraþon í ágúst. Hann segist sjálfur alltaf fá sér heilsusaltið góða eftir hlaup því þá þarfnist líkaminn vissra næringarefna. Heilsusaltið sem þeir félagar hafa unnið með að þróa í tuttugu ár varðveitir þau snefilefni sem líkaminn þarfnast eftir áreynslu.

Næringarríkt heilsusalt

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við hittum Egil Þórir í byrjun sumars, nokkrum dögum fyrir ferðalag hans til Evrópu en þar ætlaði hann að ganga á fjallið Elbrus (5.642m) sem staðsett er mjög sunnarlega í Rússlandi en við vorum forvitin að vita hvað tveir efnaverkfræðingar væru að bardúsa á Ásbrú en þar framleiða þeir heilsusaltið góða.

„Við Helgi stofnuðum þetta fyrirtæki Arctic Sea Minerals, formlega árið 2012 og erum að fara með vöruna á markað núna til almennings. Við höfum verið að þróa heilsusaltið okkar í næstum tuttugu ár og markmiðið er að fara í frekari afurðir. Stefnan er að nýta áfram sjó af Reykjanesi í framleiðsluna en sjórinn á þessu svæði er einstaklega hreinn því hann hefur farið í gegnum hraun, jarðlög sem gera hann einstaklega hreinan og tæran. Saltið sem við framleiðum er framleitt með nýrri aðferð sem gerir það að verkum að við fáum öll snefilefni úr sjónum en saltið bragðast samt eins og hefðbundið salt en er mun næringarríkara. Ákveðin eimunartækni gerir okkur þetta mögulegt. Efnin í saltinu eru varðveitt í framleiðsluferlinu, eins og natríumklóríð, kalíumklóríð, magnesium sölt og snefilefnin járn, zink, kopar, króm, nikkel, selenium og mun fleiri efni sem eru lífsnauðsynleg fyrir mannslíkamann. Sumt af þessum efnum er fólk að taka inn í fæðubótarefnum. Sjálfur nota ég þetta salt eftir hlaup og eftir að hafa erfiðað og svitnað því þá þarfnast líkaminn þess,“ segir Egill Þórir sem segir þá félaga hafa dottið í lukkupottinn þegar þeir fengu styrk frá Tækniþróunarsjóði Íslands árið 2012 sem gerði þeim kleift að víkka út rannsóknir sínar og hefja markaðssetningu á framleiðslunni. 



Vildu varðveita heilsusamleg efni úr sjó

Þróunarvinnan hefur tekið þá félaga langan tíma því þeir voru að leita leiða til þess að varðveita snefilefnin sem eru náttúrulega fyrir hendi í sjónum sem dælt er upp út af Reykjanestá. „Helst viljum við verða staðsettir í nálægð við Reykjanesvirkjun því þar er aðgangur að sjó, hafsjó og heitum jarðsjó sem er tvennt ólíkt. Það sem er svo einstakt á heimsvísu á Reykjanesskaga er aðgangur að sjó sem hefur síast í gegnum jarðlög en hraunið virkar eins og sía á sjóinn og hreinsar út öll mengandi efni. Sjórinn er einstakur að þessu leyti og það vita fleiri en við, til dæmis þeir sem eru að fást við fiskeldi hér á Reykjanesskaga. Heitur jarðsjór sem tekin er úr borholu hefur allt aðra efnasamsetningu en hafsjór. Á sínum tíma byrjuðum við á rannsóknarstofu, staðfestum fyrst aðferðina sem við vildum þróa og hvort það væri mögulegt að varðveita öll þau næringarefni sem sjórinn inniheldur. Við höfum stækkað þetta verkefni í nokkrum þrepum í gegnum árin og sjálfir smíðað tæki með tæknimönnum okkar til þess að gera okkur það kleift að varðveita næringarefnainnihald sjávarins og þar með saltsins sem við viljum framleiða,“ segir Egill Þórir. 

Vegna styrks frá Tækniþróunarsjóði Íslands þá vilja þeir félagar víkka út starfsemina, fara með heilsusaltið til fólksins, leyfa því að prófa og finna áhrifamátt þessa salts, sem þeir vilja kalla heilsusalt vegna eiginleika þess. 

„Salt er ekki bara salt. Sölt eru grundvöllur þess að líkaminn starfar eðlilega. Ef þú sleppir því að borða salt þá minnkar blóðvökvi og uppþornun á sér stað. Aðalatriðið er að drekka vatn og ¼ úr teskeið af salti í vatnið en ekki hvaða salt sem er. Við getum auðveldlega mælt með þessu heilsusalti því við vitum allt um innihald þess og höfum þróað það þannig að neysla þess getur haft heilsusamleg áhrif. Ég nota sjálfur þetta salt í vatnsglas eftir hlaup. Daglega nota ég heilsusaltið í hafragrautinn minn því við þurfum salt,“ segir Egill Þórir sem lítur mjög vel út miðað við aldur og það læðist að manni grunur að það gæti verið vegna þess að líkami hans fær nægilegt magn af bætiefnum úr þessu heilsusalti. 

Nú gefst almenningi kostur á að kaupa LifeSalt
„Ég vil þakka heilsusaltinu fyrir það hvað ég er hraustur og auðvitað hreyfingunni en þetta fer saman hjá mér. Manneskjan kom upphaflega úr sjónum, þegar sjávarlífverur skriðu upp á land. Öll spendýr koma úr sjó og líkamsstarfsemi okkar byggir á þessum efnum sem finnast í sjónum en þau taka þátt í efnahvörfum líkamans. Þessi efni hafa tilgang. Heilsusaltið sem við erum að framleiða hjá Arctic Sea Minerals og nefnum LifeSalt, inniheldur öll þessi efni sem við þurfum og hefur svipaða samsetningu og blóðvökvi líkamans. Við getum sagt að þetta sé heilsusamleg vara eftir að hafa sannprófað á okkur sjálfum og þróað vöruna í öll þessi ár. Nú erum við tilbúnir að leyfa almenningi að njóta og viljum koma saltinu í heilsudeildir matvöruverslanna og á fleiri staði sem hugsanlega vilja selja heilsusalt til almennings.“

[email protected] 

Frá Reykjanesi.