Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Sala á Kia ævintýri líkust
Guðbjörg Theodórsdóttir, Kjartan Steinarsson og Sigtryggur Steinarsson. VF-mynd: Hilmar Bragi
Mánudagur 17. nóvember 2014 kl. 02:18

Sala á Kia ævintýri líkust

– K. Steinarsson fagnar fimmtán 15 ára afmæli.

„Þetta hefur verið bras í þessi fimmtán ár og starfsemin hefur gengið upp og niður. Það gekk mjög vel frá árinu 1999 til ársins 2008. Frá þeim tíma hefur reksturinn verið brösóttur. Staðan í dag er hins vegar þannig að allt er farið að ganga mikið betur og reksturinn hefur gengið ágætlega síðustu tvö árin,“ segir Kjartan Steinarsson eigandi K. Steinarssonar sem fagnaði fimmtán ára afmæli á dögunum.

K. Steinarsson var stofnað árið 1999 þegar Kjartan tók við umboði fyrir Heklu hf. á Suðurnesjum og opnaði glæsilega bílasölu og þjónustuumboð í Hekluhúsinu við Njarðarbraut. Breytingar urðu árið 2011 þegar nýir eigendur komu að Heklu. Þá ákvað Kjartan að segja upp umboði sínu fyrir bíla frá Heklu og flutti sig um set og tók með sér umboð fyrir Öskju á nýjan stað við Holtsgötu í Njarðvík. Kjartan var á þessum tíma með fjölda fólks í vinnu á bílasölu og þjónustuverkstæði. Hann útvegaði öllum starfsmönnum sínum vinnu á öðrum stöðum en Kjartan og eiginkona hans, Guðbjörg Theodórsdóttir, fluttu fyrirtækið á nýjan stað. Sigtryggur Steinarsson, bróðir Kjartans, fylgdi honum á nýjan stað. Þau starfa þrjú í dag hjá fyrirtækinu.

Hátt hlutfall Kia-bíla á Suðurnesjum

K. Steinarsson leggur í dag megináherslu á sölu Kia-bíla á Suðurnesjum. Kia er frá Öskju eins og Benz, sem Kjartan selur einnig. Þá er K. Steinarsson einnig umboðsaðili á Suðurnesjum fyrir Suzuki-bíla en fyrirtækið tók við því umboði á síðasta ári og hefur sala þeirra bíla einnig gengið vel á Suðurnesjum.
Kjartan segir að sala Kia á Suðurnesjum sé í raun ævintýri líkust. Það sé grínast með það að annar hver bíll sé að verða Kia en það eru a.m.k. margir slíkir bílar í umferð á Suðurnesjum og hlutfallið á landsvísu nokkuð hátt á Suðurnesjum. Frá því K. Steinarsson flutti á Holtsgötuna hefur fyrirtækið selt á fimmta hundrað Kia-bíla til Suðurnesjamanna.

Kjartan segir að markaðurinn sé að taka við sér aftur eftir langt hlé sem hefur staðið upp undir sex ár. Á þessum tíma hefur verið lítið um að einstaklingar hafi verið að kaupa bíla. Bílaleigur hafa verið stærstu viðskiptavinir bílasölunnar síðustu ár en nú er markaðurinn að rétta úr kútnum. Kjartan segir þó að Suðurnes séu ennþá erfitt markaðssvæði. Hér hafi verið miklir erfiðleikar og enn séu erfiðleikar hjá fyrirtækjum á svæðinu þó svo það sé að birta til.
„Við finnum það vel að ungt fólk er mikið að kaupa Kia í dag. Það er að leita að sparneytnum bíl og svo horfir það einnig til þess að bílarnir eru með sjö ára ábyrgð. Vinsælustu tegundirnar eru Ceed, Sportage og Rio“.

Rafbílar framtíðin sem aukabíll á heimili

- Þið voruð að sýna rafmagnsbíl. Er það framtíðin?
„Rafmagnsbílar eru næsta skref hjá Kia og það verður spennandi að fá að kynna hann á næstu vikum. Menn hafa lengi verið efins með rafgeymana í þessum rafmagnsbílum en Kia stígur skrefið til fulls og býður bílinn og geymana með sjö ára ábyrgð. Ég held að rafmagnsbílar verði framtíðin sem aukabílar á heimilinu og bílarnir sem verða notaðir í styttri ferðir, því eins og staðan er í dag er drægni þessara bíla ekki mikið meiri en 150 km. á einni hleðslu. Rafbíllinn frá Kia verður kynntur formlega strax á nýju ári og ég bíð spenntur eftir að bjóða Suðurnesjamönnum upp á þennan bíl“.

Aðspurður um bílafjármögnun í dag þá segir Kjartan að með kreppunni hafi komið fram nýir möguleikar í fjármögnun bíla með óverðtryggðum lánum. Kjartan hvetur fólk þó til þess að leggja sjálft til a.m.k. 20% af andvirði bílsins. „Bílar eru ekki fjárfesting sem þú græðir á en með því að kaupa nýjan bíl í dag er fólk jafnvel að lækka mánaðarlegan rekstrakostnað. Fólk er þá á nýjum og öruggari bíl,“ segir Kjartan Steinarsson bílasali og eigandi K. Steinarssonar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024