Sækja á matsölumiðin
- Nýir eigendur taka við Kantinum í Grindavík
Grindvíkingurinn Kári Guðmundsson hafði verið með þann draum í maganum í áratug að opna matsölustað. Hann hafði gegnt ýmsum störfum og meðal annars starfað sem kokkur á sjó um nokkurt skeið. Hann hefur nú tekið við rekstrinum á Kantinum í Grindavík ásamt konu sinni Ölmu Guðmundsdóttur og Arnari syni sínum.
Þau Kári og Alma höfðu enga reynslu af veitingarekstri áður en stukku á tækifærið þegar það gafst nú skömmu fyrir sjómannahelgina. Kári var kokkur á sjó í nokkur ár og hefur alltaf unað sér vel við eldamennsku. Hann segist hafa mjög gaman af því að bjóða fólki heim og elda góðan mat. „Bróðir minn lærði meistarakokkinn og ég hef fylgst vel með honum. Ég er alveg búinn að vera með það í maganum síðustu tíu ár að opna veitingastað,“ segir Kári sem hefur síðustu ár starfað sem trésmiður.
Fyrrum eigandinn, Björn Haraldsson, eða Bangsi eins og hann er kallaður, var ekki alveg á því að selja reksturinn frá sér enda hefur hann verið með verslun af einhverju tagi á staðnum síðustu 46 árin. Tækifærið kom þó fyrir hjónin skömmu fyrir þessa stóru helgi, sjómannahelgina. Þau þurftu þá að setjast niður að taka ákvörðun með hraði í samvinnu við fjölskylduna. Ákveðið var að stökkva beint í djúpu laugina.
Þau ákváðu að leggja áherslu á íslenskan fisk og lambakjöt þegar kom að matnum. Það hefur mælst vel fyrir hjá ferðamönnum sem mæta á staðinn og hafa margir orð á því að djúpsteikti fiskurinn sé einn sá besti sem þeir hafa smakkað.
Kári segist ætla að reyna að sinna heimafólki vel með því að bjóða upp á viðburði af ýmsu tagi á barnum. Allt frá árinu 1989 hefur verið bar á staðnum en þá tók til starfa Hafurbjörninn. „Allir Grindvíkingar muna eftir húsnæðinu sem djammstað. Hér á árum áður var alltaf troðfullt hverja helgi. Það er draumurinn að vekja upp þá gömlu stemningu.“
Það er mikil vinna að reka svona stað en þau hjónin eru ýmsu vön og kalla ekki allt ömmu sína. „Þetta er þannig rekstur að það þarf að vera hægt að treysta á fjölskylduna því þetta er mjög bindandi. Frá því að við opnuðum þá er ég búinn að eiga heima hérna meira og minna,“ segir Kári og hlær. Kári segist hafa fengið jákvæð viðbrögð frá heimafólki og er hann fullur bjartsýni. Kári var með trillu á sínum tíma þar sem hann sótti sjóinn stíft. „Ég get bara lýst þessu þannig að maður er að sækja á miðin hérna. Maður veit svo ekkert hvað maður fiskar.“