Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Rúmlega 800 milljóna króna hagnaður á síðasta ári
Miðvikudagur 16. apríl 2003 kl. 09:57

Rúmlega 800 milljóna króna hagnaður á síðasta ári

Aðalfundur Hitaveitu Suðurnesja hf. var haldinn í Eldborg í Svartsengi sl. föstudag. Hagnaður HS var á síðasta ári rúmar 800 milljónir og er það tæplega 200 milljónum króna meiri hagnaður en árið 2001, en þá var hagnaðurinn rúmar 600 milljónir króna. Tekjur ársins námu tæpum 3,5 milljórum króna sem er um 23% meira en árið 2001. Á fundinum var samþykkt að greiða 270 milljónir króna í arð til hluthafa. Reykjanesbær sem er stærsti hluthafinn fær rúmar 109 milljónir í arðgreiðslur, Hafnarfjarðarbær og ríkissjóður fá tæplega 42 milljónir og aðrir hluthafar minna.Í máli Júlíusar kom fram að HS greiðir Landsvirkjun um 260 milljónir króna vegna flutnings raforku, en Hitaveitan á og rekur eigin flutnings- og dreifikerfi. Ef kröfur Landsvirkjunar um flutningsgjöld vegna stækkunar Norðuráls hækka þessar greiðslur í um 400 milljónir króna. Júlíus sagði að ef hugmyndir stjórnvalda verði að veruleika um frekari gjaldtöku fyrir flutning og verðjöfnun rafmagns þá myndu greiðslur fyrirtækisins nema um 700 milljónum króna á ári en sú upphæð myndi standa undir fjárfestingum upp á 9,5 milljarða króna. Hitaveita Suðurnesja hf. á og rekur allt rafmagnsflutningskerfið á Suðurnesjum og er öll raforka flutt um kerfi fyrirtækisins á kostnað þess.
Á árinu 2002 námu fjárfestingar í orkuveri og veitukerfum 780 milljónum króna. Á Reykjanesi voru boraðar tvær borholur og unnið að undirbúningi virkjunar. Heildarkostnaður vegna þessa verkefna var rúmar 430 milljónir króna. Í rafveitukerfum var fjárfest fyrir tæpar 148 milljónir sem skiptust þannig að rúmar 54 milljónir voru á Suðurnesjum, tæpar 53 milljónir á Hafnarfjarðarsvæðinu og tæpar 50 milljónir í Vestmannaeyjum. Fjárfest var í nýrri starfsstöð í Hafnarfirði fyrir rúmar 70 milljónir króna og hlutafjárkaup í öðrum félögum var rúmar 40 milljónir króna.

VF-ljósmynd: Frá aðalfundinum í Eldborg sl. föstudag.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024