Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Reynsluboltar styrkja verslanasvið Samkaupa
Sigurður Hansen og Heiðar Róbert Birnuson.
Fimmtudagur 15. ágúst 2024 kl. 11:22

Reynsluboltar styrkja verslanasvið Samkaupa

Sigurður Hansen hefur verið ráðinn í stöðu rekstrarstjóra Nettó og Heiðar Róbert Birnuson tekur við nýrri stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra á verslunar- og mannauðssviði Samkaupa. Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs hjá Samkaupum, segir ráðningarnar munu styrkja allar verslanir fyrirtækisins og lítur björtum augum til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sigurður tekur við sem rekstrarstjóri Nettó verslananna sem eru 21 talsins og staðsettar hringinn í kringum landið. Sigurður hefur áratugalanga reynslu í viðskipta- og rekstrarstjórn verslana, nú síðast sem viðskiptastjóri verslana og veitingareksturs á Keflavíkurflugvelli og þar á undan sem rekstrarstjóri verslana Hagkaups í yfir áratug.

„Við viljum styrkja Nettó á komandi árum og á þeirri vegferð stefnum við á ýmsar úrbætur fyrir viðskiptavini okkar um allt land til að geta haldið áfram að bjóða samkeppnishæft verð á lágvörumarkaði. Mikil og hröð uppbygging Nettó krefst þess að fundnar séu nýjar nálganir í rekstri og því erum við ánægð að fá reynslubolta eins og Sigurð til okkar í Samkaupaliðið. Framundan er opnun tuttugustu og annarrar Nettó verslunarinnar, við Eyrarveg á Selfossi, sem verður opnuð í 1.000 fermetra verslunarrými í austurhluta bæjarins, en þar er hröð uppbygging að eiga sér stað. Ráðningin kemur því á frábærum tíma,“ segir Gunnur.

Sigurður tekur við stöðunni af Heiðari Róbert Birnusyni, sem tekur við nýju hlutverki aðstoðarframkvæmdastjóra á verslunar- og mannauðssviði Samkaupa þar sem hann mun leiða umbótaverkefni og þróun þvert á fyrirtækið. Heiðar Róbert hefur unnið hjá Samkaupum undanfarin nítján ár og gegnt stöðu rekstrarstjóra Nettó og Kjörbúða, ásamt því að hafa verið verslunarstjóri verslana Nettó við Krossmóa í Reykjanesbæ, Nettó á Egilsstöðum og Krambúðarinnar við Borgarbraut á Akureyri.

„Það eru fáir sem hafa unnið jafn lengi og Heiðar hjá Samkaupum og með farsæla tvo áratugi að baki er hann í kjörstöðu til að leiða umbótaverkefni þvert á verslanakeðjur fyrirtækisins. Með stöðunni viljum við auka heildarsýn yfir allar framkvæmdir og umbótaverkefni innan Samkaupa og þannig bæta verkefnastýringu og auka hagkvæmni í rekstri. Þá mun Heiðar leiða þróun á netverslun Samkaupa og styrkja fyrirtækjaþjónustu með henni. Við erum gríðarlega þakklát að hafa starfsfólk eins og Heiðar sem vex og dafnar með fyrirtækinu,“ segir Gunnur.

Um Samkaup
Samkaup reka rúmlega 60 smávöruverslanir víðsvegar um landið. Viðskiptavinir Samkaupa geta valið á milli helstu verslanakeðja félagsins. Þær eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland. Staða Samkaupa er áberandi og sterk, bæði utan og innan höfuðborgarsvæðisins. Félagið býður upp á myndarlegar verslanir, fjölbreytt vöruúrval og sanngjarnt verð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024