Rétti tíminn fyrir álver í Helguvík
„Nú er rétti tíminn til að ráðast í byggingu álvers Norðuráls í Helguvík enda er slaki í hagkerfinu. Það er ekki öruggt að álverið verði reist. Ef framkvæmdirnar frestast eða eru slegnar út af borðinu dregur það úr því hversu hratt hagkerfið mun vaxa á næstunni, hversu hratt mun draga úr atvinnuleysi og ný störf skapast,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka í viðtali við Morgunblaðið sl. laugardag.
„Við spáum 3,4% hagvexti á næsta ári og erum þar að reikna með því að Helguvík komi inn af fullum þunga. En ef Helguvík hverfur úr myndinni má búast við að hagvöxturinn verði umtalsvert minni eða um 2,5%,“ segir Ingólfur Bender.
Slaki í hagkerfi þýðir að hjól atvinnulífsins snúast ekki jafn hratt og þau geta og að framleiðsluþættirnir eru ekki að fullu nýttir þ.m.t. vinnuaflið. Ingólfur segir að álverið í Helguvík, en búist er við að framkvæmdir hefjist á næsta ári, geti haft góð áhrif á ýmsa þætti hagkerfisins: t.d. ráðstöfunartekjur heimilanna, atvinnuleysi, einkaneyslu og útflutning litið til lengri tíma.
„Aftur á móti er það svo að ef ekki verður af framkvæmdum í Helguvík þýðir það ekki að hagkerfið fari í baklás og við þurfum að horfast í augu við samdrátt. Þetta er ekki jafn stór framkvæmd og þegar Alcoa reisti álver á Reyðarfirði á árunum 2005-2008. Framkvæmdirnar þá höfðu mikil ruðningsáhrif í hagkerfinu á tímum þegar hér var mikil þensla og eignabóla. Nú er því miklu betri tími til að fara í stóriðjuframkvæmdir,“ segir Ingólfur.
Það eru nokkrir óvissuþættir í hagspá greiningardeildar Íslands. Hann segir að það séu meiri líkur á að hagvöxtur verði minni en 3,4% á næsta ári en meiri. Til þess að hagvöxtur yrði meiri, þyrfti t.d. að ráðast í frekari fjárfestingar eða uppsveiflan í ferðaþjónustu yrði hraðari en reiknað var með. Og honum þykir það ekki líklegt. Auk þess sem þróunin á alþjóðamörkuðum skipti miklu máli en þar ríkir mikil óvissa um framvinduna.
www.mbl.is