Rafmagnsbílafjör á Fitjum
„Holskefla í pöntunum á rafmagnsbílum,“ segir Sverrir Gunnarsson í Bílakjarnanum
„Við áttum ekki von á því að þróunin í rafmagnsbílum yrði svona hröð. Það hefur orðið holskefla í pöntunum, mikill meirihluti þess sem við seljum í dag eru 100% rafmagnsbílar,“ segir Sverrir Gunnarsson í Bílakjarnanum á Fitjum í Njarðvík.
Bílakjarninn er með umboð fyrir Heklu á Suðurnesjum og er með nokkur heimsþekkt bílamerki í sölu eins og Audi, Volkswagen og Skoda. Hægt er að fá rafmagnsbíla frá þeim öllum í ýmsum stærðum og gerðum en líka dísil og bensín og blendinga.
Sverrir hóf fyrirtækjarekstur árið 1999 þegar hann og félagi hans opnuðu Nýsprautun, bílasprautun og réttingar. Sverrir eignaðist fyrirtækið einn nokkrum árum síðar en færði svo út kvíarnar fyrir þremur árum og gerðist líka bílasali þegar hann tók við Heklu umboðinu á Suðurnesjum, sem er með stórt og glæsilegt húsnæði og sýningarsal á Fitjum.
Sýnilegir á Fitjum
„Við erum mjög sýnilegir og það er ekki slæmt hér við Reykjanesbrautina,“ segir Sverrir en hvernig hafa viðtökurnar verið frá því hann tók við Heklu umboðinu fyrir þremur árum síðar?
„Bara frábærar og ég vil bara nota tækifærið og þakka fyrir það. Þó ég hafi verið í bílagreininni í tuttugu ár þá var það nýtt fyrir mig að fara í bílasölu og ég var auðvitað að renna blint í sjóinn en ég sé ekki eftir því. Þetta er skemmtilegur rekstur, ég hef verið heppinn með starfsfólk og þetta gengur vel,“ segir Sverrir um leið og hann býður fréttamanni Víkurfrétta í nýjan Audi Etron rafmagnsbíl. „Þú verður að prófa þennan. Þetta er eitthvað annað,“ segir hann og glottir og fréttamaður sest undir stýri og fer að spyrja bílasalann um rafmagnsbíla. Það liggur beinast við að spyrja um þróun í bílasölu á þremur árum því á þessum tíma hafa orðið verulegar breytingar og þróun og innkoma rafmagnsbíla verið hröð. Sverrir tekur undir það um leið og við keyrum af stað í þessum geggjaða Audi sem er sportlegur í meira lagi en þó með pláss fyrir fleiri en tvo. Bílstjórinn ýtti aðeins á „pinnann“ og viðbragðið var þannig að það kom „kippur“ í magann. Þessi rafmagnsbílar eru fljótir af stað og það þarf að fara varlega. Það er auðvelt að fara yfir löglegan hámarkshraða og oft erfitt að halda sér á „mottunni“ eins og það er stundum orðað.
Sverrir segir að nú sé komið talsvert magn af bílum sem eru komnir með drægni yfir 500 km. Rekstrartölur fyrir rafmagnsbíla eru mjög hagkvæmar fyrir heimilisbókhaldið og auðvitað eins fyrir fyrirtæki sem hafa í miklum mæli snúið sér alfarið að rafmagnsbílum. Sverrir upplýsir blaðamann um tölur sem skýra að miklu leyti skýringuna á því að sala rafmagnsbíla hefur rokið upp.
Gott fyrir heimilisbókhaldið
„Ef við rýnum í rauntölur af rekstri rafmagnsbíl nemur hann um 1/5 eða 1/6 af venjulegum bensín eða díselbíl. Þú ert farinn að finna verulega fyrir því í heimilisbókhaldinu. Þá eru fjölmörg fyrirtæki farin að kaupa eingöngu rafmagnsbíla, bæði af hagkvæmnisástæðum og umhverfislegum.“
Hvað er þetta mikill sparnaður?
„Rafmagnskostnaður á meðal rafmagnsbíl heimilisins er um 3.500-4000 kr. á mánuði. Þetta er mikill sparnaður og sérstaklega þegar bíllinn er hlaðinn heima við. Það er eitthvað dýrara á hleðslustöðvum. Það hefur verið jákvæð þróun í með uppsetningu hleðslustöðva í fjölbýlishúsum og mikil vakning þar. Flestir verktakar hafa þetta í huga núna við byggingu fjölbýlishúsa.“
Er nógu mikið af hleðslustöðvum á Suðurnesjum?
„Nei, en það stendur til bóta og vonandi fer þetta að gerast hraðar og fjöldi hraðhleðslustöðva aukist.“ Sverrir segir að biðtími eftir nýjum rafmagnsbíl, sama hvaða tegund á við, sé nokkuð langur, of langur. „Biðtími eftir rafmagnsbílum er alltof langur, 6-8 mánaða bið, það er lítið til af bílum sem hægt væri að fá afhentan fyrir áramót. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu sem flestir þekkja, heimsfaraldur og stríð spila þar nokkuð stór inn í.“
Stjórnvöld kynntu nýlega breytingar á ýmsum gjöldum sem koma við eigendur rafmagnsbíla sem hafa hingað til greitt mjög lág bifreiðagjöld og notið ýmissa fríðinda.
„Jú, þessi umræða hafði strax áhrif fyrr í mánuðinum. Það hafa margir hafa áhyggjur af vörugjaldabreytingum og vilja kaupa nýjan bíl sem fyrst. Stjórnvöld eru með 20 þúsund bíla hámark þar sem veittur er afsláttur í formi virðisaukaskatts og þá hafa rafmagnsbílar ekki borið vörugjöld. En það liggur í augum uppi að eigendur rafmagnsbíla þurfa að greiða meira, þeir nota vegakerfið jafn mikið og hinir.“
Sverrir segir að rafmagnsbílar séu um 70% sölunnar það sem af er ári, 20% í dísel og rest í blendingum eða bensín. 80% bíla í pöntun séu rafmagnsbílar.
En hver er þá staðan hjá fólki sem á dísil eða bensínbíl?
„Það er alltaf þörf fyrir dísil eða bensínbíla þó straumurinn liggi í hina áttina. Dráttargeta í flestum rafmagnsbílum er talsvert minni t.d. og hefur áhrif.“
Mikill bílaáhugi
Það er ekki hægt að sleppa Sverri í þessu spjalli um leið og við reynsluökum þessu skemmtilega Audi rafmagnsbíl og spyrja hann út í bílaáhuga á Suðurnesjum.„Það er hefur alltaf verið mikill áhugi á bílum á Suðurnesjum. Það hefur lengi verið viðloðandi við svæðið og oft hefur maður heyrt talað um bílabæinn Keflavík. Ég held að það hafi ekki orðið nein breyting á því. Þú sérð marga flotta bíla í umferðinni í umferðinni á Suðurnesjum.“
Bílakjarninn stendur undir nafni og í vor bætti Sverrir í „kjarnann“ með því að kaupa elsta dekkjaverkstæði svæðisins þegar hann tók við lyklunum af þeim Birni og Þórði í samnefndu dekkjaverkstæði í Keflavík. „Það var gaman að kaupa þetta af þeim félögum sem höfðu verið í fjörutíu ár í bransanum. Við erum að skoða möguleika þessa dagana í því að færa dekkjaverkstæðið út á Fitjar og byggja við húsnæðið okkar. Skemmtilegar hugmyndir og vonandi verða að veruleika. Þangað til verðum við þó áfram með öflugt dekkjaverkstæði á gamla staðnum,“ segir Sverrir sem skipti við blaðamanninn og settist undir stýri á Audi GT rafmagnsbílnum. „Þetta er alvöru græja. Við skulum kíkja aðeins út á Hafnaveg og sjá hvað hann getur.“
Magnaður og fallegur
Sportbílinn Audi e-tron GT er bæði magnaður bíll og gullfallegur að utan sem innan. Það er heill hellingur af hestöflum í þessum magnaða bíl sem er með fjórhjóladrif og sekúndurnar upp í 100 km. hraða eru ekki nema fjórar. Maður fær í magann!
Drægnin er 488 km. og framleiðendur segja að það taki aðeins 22,5 mínútur að hlaða bílinn úr 5% í 80% hleðslu. Aksturinn er hrein unun. Hann fer ótrúlega vel með bílstjórann og farþega sem komast vel fyrir líka í aftursætinu sem er mikill kostur fyrir sportbíl.
Verðið kemur á óvart þó flestum þyki þokkalega mikið að borga 14 til 16,7 milljónir fyrir bíl. Maður gat alveg ímyndað sér að það þyrfti að taka meira úr veskinu fyrir svona bíl sem er vissulega ekki fjölskyldubíll í orðsins fyllstu merkingu þó fimm manna fjölskylda rúmist vel í honum. Þetta er auðvitað sportari og stendur svo sannarlega undir nafni.