Rafmagnaður GOLF sló í gegn á Suðurnesjum
Vel sótt bílasýning hjá Heklu þar sem 22 gerðir bíla voru sýndir.
-Bílasala á mikilli uppleið, segja þeir Lárus og Sigurður bílasalar hjá Heklu
„Þetta var frábær bílasýning. Við vorum hér með 22 nýja bíla til sýnis og hingað komu um 300-400 manns,“ sögðu þeir Lárus Magnússon og Sigurður Guðjónsson, bílasalar hjá Heklu í Reykjanesbæ.
Meðal nýrra bíla sem sýndir voru og margir prófuðu var e-GOLF en það er rafmagnsbíll. Hann fer nærri 200 kílómetra á hleðslunni. Rafbíllinn kostar 4,6 millj. kr. Fjörutíu ára afmælisbíll GOLF var einnig til sýnis en þessi bílategund hefur lengi verið vinsæll. Þá vakti nýr Mishubishi Outlander jepplingur líka mikla athygli en þar er á ferðinni hybrid/bensínbíll. Sá bíll er í boði frá 5 millj. kr. sem þeir félagar sögðu að væri ákaflega hagstætt verð fyrir svo veglegan jeppling. Vinsælasti bíll Heklu er Skoda en hér á Suðurnesjum er stór hluti leigubílstjóra með slíkan bíl. Þá er Hekla með Volkswagen bíla og hinn heimsþekkta Audi sem er til í allt frá smábíl upp í mjög stóran glæsijeppa.
Þeir félagar voru sammála um að margir minni og meðalstórir bílar væru á hagstæðu verði en það stafar m.a. af því að þeir menga minna og fara því í lægri gjaldaflokka.
Þeir Lárus og Sigurður voru sammála um að bílasala væri á mikilli uppleið og bílafloti landans myndi yngjast á næstu árum. Hluti af aukinni sölu má tengja auðveldara aðgengi að fjármagni en nú er hægt að fá allt að 80% lán. „Hekla leggur mikla áherslu á að veita góða þjónustu á Suðurnesjum í þessu umboði þar sem auk bílasölu er þjónustuverkstæði. Samtals eru sex starfsmenn sem sinna bílasölu og verkstæðinu. Við tökum vel á móti öllum og bjóðum mikið úrval nýrra bíla,“ sögðu þeir að lokum.
Víkurfréttir reynsluóku rafGOLF og hér að neðan má sjá myndir frá því og viðtal við Lárus bílasala.
VW GOLF rafbíll í sýningarsal Heklu á Suðurnesjum.