RAFEINDATÆKNI STÆKKAR OG EYKUR ÞJÓNUSTUNA
Rafeindatækni í Keflavík sem hingað til hefur aðallega sinnt viðgerðarþjónustu á ýmis konar raftækjum hefur stækkað verslun sína að Tjarnargötu 7 þar sem fyrirtækið hóf rekstur fyrir rétt tæpum tuttugu árum.Í „nýju“ versluninni sem hefur verið innréttuð á skemmtilegan en jafnframt óvenjulegan hátt er nú boðið upp á úrval hljóm- og raftækja af flestum gerðum, s.s. sjónvörp, hljómtæki, myndbandstæki og síma. Þeir Páll Hilmarsson og Guðmundur Björnsson rafeindavirkjar og eigendur Rafeindatækni sögðu að þegar húsnæði við hlið þeirra hafi losnað nýlega hafi þeir séð sér leik á borði og ákveðið að stækka aðstöðuna og geta þannig aukið þjónustuna. Þeir félagar eru með mikið úrval GSM síma þar á meðal Ericsson en eru jafnframt með umboð fyrir Tal á Suðurnesjum og sömuleiðis Hátækni sem er með Nokia GSM og NMT farsíma. Símamál hafa verið ein af sérgreinum þeirra félaga því þeir hafa einnig selt símkerfi frá Ístel og séð um uppsetningar og viðhald á þeim hjá fyrirtækjum á Suðurnesjum. Þá er ógetið bíltækja, loftnets og loftnetskerfa sem hafa Viðgerðarþjónusta verður áfram mikilvægur þáttur í þjónustu fyrirtækisins en með nýrri viðbót sem nýja verslunin er, verður hægt að bjóða Suðurnesjamönnum upp á faglega þjónustu í kaupum á hinum ýmsu tækjum sem boðið er upp á í Rafeindatækni.