Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Primos er ný hár- og snyrtistofa í Reykjanesbæ
Þórdís Lára Herbertsdóttir og Margrét Sörensen, eigendur hár- og snyrtistofunnar Primos.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 30. desember 2020 kl. 16:09

Primos er ný hár- og snyrtistofa í Reykjanesbæ

„Frábærar viðtökur,“ segja frænkurnar Margrét Sörensen og Þórdís Lára Herbertsdóttir sem bjóða hársnyrtingu, snyrtingu og dekur

Tvær frænkur úr Reykjanesbæ opnuðu nýlega hár- og snyrtistofu að Brekkustíg 41 í Njarðvík. „Viðtökurnar hafa verið frábærar. Við áttum ekki von á svona góðum móttökum en erum afskaplega þakklátar og spenntar fyrir framtíðinni,“ segja þær Margrét Sörensen og Þórdís Lára Herbertsdóttir, eigendur hár- og snyrtistofunnar Primos.

Þær frænkur voru að vinna á öðrum stofum en það hafði lengi verið draumur hjá þeim báðum að opna eigin stofu með fjölbreytta starfsemi í hári, snyrtingu og förðun. „Hugmyndin og undirbúningurinn þróaðist skemmtilega og okkur gekk mjög vel að fá fólk með okkur. Upphaflega ætluðum við ekki að vera með svona marga stóla en niðurstaðan var sú að við erum með fjóra hárgreiðslustóla, tvo í snyrtingu og tvo í nöglum. Á stofunni starfa löggiltir hár- og snyrtisveinar, fótaaðgerða- og naglafræðingar. Við opnuðum 23. nóvember og það er búið að vera mikið að gera frá þeim degi,“ sögðu þær en húsnæðið fengu þær snemma í haust og hófst þá mikil vinna við að breyta húsnæðinu. Þær fengu marga með sér í lið; eiginmenn, vini og ættingja sem hjálpuðu til við að gera stofuna klára. „Það gekk ótrúlega vel og erum í skýjunum hvernig til tókst. Við erum óendanlega þakklátar öllu þessu fólki sem hjálpaði okkur.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Primos nafnið á stofunni þýðir frænkur á spænsku og í merki stofunnar eru tvær liljur en Dæja amma þeirra hélt mikið upp á það blóm og hönnunin á því er gerð í minningu hennar. „Við vildum hafa andrúmsloftið rólegt og heimilislegt á stofunni og erum mjög ánægðar hvernig til hefur tekist. Við erum með tímabókanir á netinu og það hefur gengið mjög vel en auðvitað tökum við líka við tímapöntunum í síma,“ sögðu þær Margrét og Þórdís Lára.

Þegar Margrét var spurð út í nýja strauma í hárgreiðslu sagði hún að „sítt að aftan“ (mullett) væri komið aftur hjá strákum en hjá konum sé „allt leyfilegt“. Þórdís Lára segir að í snyrtingunni væri það ánægjulegt hvað margir karlar væru orðnir fastakúnnar. „Þeir koma í sama og konurnar, hand- og fótsnyrtingu, andlitsbað og vax. Þetta hefur verið smá feimnismál hjá körlum í gegnum tíðina en það er að breytast. Afi minn sem er um sjötugt er einn af þessum nýju kúnnum og hann er alsæll þegar hann er búinn að vera hjá mér,“ segir Þórdís Lára.

Eitt af því sem þær Margrét og Þórdís Lára vildu hafa í lagi þegar framkvæmdir stóðu yfir við stofuna var að hafa gott aðgengi inn í hana og það tókst mjög vel. Það hefur verið annasamur tími fyrir jólin og verður einnig fyrir áramótin en þær eru brattar og hlakka til að taka á móti viðskiptavinum á nýju ári.

Tímapantanir eru í síma 421-5909 eða í appinu fresha.com undir Primos hár og dekur.

Ungir sem eldri fá klippingu eða permanent eins og þessi ungi peyi.

Alma Rún Jensdóttir, hársnyrtir með Ingu Jónu Björgvinsdóttur, ömmu sína í stólnum.

Aðstaðan er mjög hugguleg í Primos og tvö herbergi sérstaklega fyrir aðra þjónustu en hársnyrtingu. Hér er Sigrún A. Kjartansdóttir, naglafræðingur að störfum.

Svona líta þær Margrét og Þórdís út - án grímu!