Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Viðskipti

Föstudagur 16. nóvember 2001 kl. 10:26

Perluskreyttir kvöldkjólar fyrir prinsessur á öllum aldri

Erla Delbertsdóttir hefur rekið verslunina Palómu við Víkurbraut í Grindavík með myndarbrag sl. 17 ár. Þar fæst allt mögulegt en Grindvíkingar og utanbæjarfólk hefur gaman af að kíkja á Erlu og starfsstúlkur hennar þar sem verðin eru hagstæð og viðmótið glaðlegt.
„Ég hef rekið þessa verslun frá upphafi og Margrét Brynjólfsdóttir hefur starfað hjá mér nánast frá byrjun og Lára Marelsdóttir er einnig búin að vera hjá mér í nokkur ár. Ég byrjaði á að vera með efni því ég saumaði mikið sjálf. Ég er ekki lengur með mikið af efnum en meira af garni, smávöru fyrir saumaskap, nærföt á allan aldur, náttföt og nærföt á dömur og herra, hannyrðablöð, útsaumsmyndir, sængurföt og teppi, falleg föt á konur á öllum aldri en við erum m.a. með föt í stærri stærðum á góðu verði. Síðan erum við með gott úrval af barnafötum frá þekktum merkjum eins og LEGO og Fixoni en við flytjum líka inn mikið sjálfar frá London“, segir Erla hress í bragði.
Erla var nýkomin frá París þegar viðtalið var tekið í byrjun nóvember og í farteskinu hafðu hún m.a. perluskreytta glæsikjóla úr siffoni og satíni og mikið af skarti og hárskrauti. Sjón er sögu ríkari. „Kvöldkjólarnir eru á mjög góðu verði og ég keypti aðeins einn af hverri tegund þannig að viðskiptavinir eiga ekki á hættu að mæta konu í eins kjól á árshátíðinni. Við erum líka með kjólana í stærri stærðum, eða allt upp í númer 24“, segir Erla en þess má geta að hún er einnig með gott úrval af töskum, treflum, hönskum, slæðum og öðrum fylgihlutum.
Föndurvörurnar fá sitt pláss í búðinni en Erla og Magga eru einmitt nýbúnar að fá jólavörurnar í búðina. „Úsaumuðu jóladúkarnir og jólapokar með pallíettum eru mjög vinsælir núna en við bjóðum m.a. upp á námskeið í gerð þeirra. Næst ætlum við að halda námskeið í gerð jólakorta sem eru gerð úr endurunnum pappír, perlusaumuð og með glimmer. Rosalega flott“, segir Magga og af lýsingunni að dæma eru miklar líkur á því. Nú er bara að skella sér á föndurnámskeið hjá þeim stöllum í Palómu og koma sér í jólaskap.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024