Ótrúlegar móttökur, kossar og faðmlög
„Móttökurnar sem við höfum fengið hafa verið ótrúlegar. Það hefur verið hérna stanslaus traffík síðan við opnuðum á fimmtudaginn í síðustu viku. Við höfum aldrei lokað klukkan fjögur. Hér hafa síðustu viðskiptavinirnir verið að fara út klukkan fimm,“ segir Ásdís Ýr Jakobsdóttir, útibússtjóri Byrs í Reykjanesbæ aðspurð um viðbrögð fólks við opnun banka í Reykjanesbæ.
Margrét Ingibergsdóttir, þjónustufulltrúi, sagði að fólk hafi ekki sett það fyrir sig að þurfa að bíða lengi eftir að komast að hjá þjónustufulltrúa en margir vilja flytja viðskipti sín yfir til Byrs. Jóna Björg Antonsdóttir, þjónustufulltrúi, sagði viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum en langflestir eru að koma með viðskipti sín úr Landsbankanum. Jóna segist ánægð að hafa stigið þetta skref að fara til Byrs og taka þátt í opnun útibúsins í Reykjanesbæ. Undir þetta tóku samstarfskonur hennar. Það hafi verið erfitt að standa upp úr stólunum og yfirgefa gamla vinnustaðinn en þær telji ákvörðunina vera þá réttu.
„Einn sagði í dag að nú væri hann kominn aftur í gamla góða sparisjóðinn sinn og þannig störfum við í anda sparisjóðsins,“ sagði Ásdís Ýr.
Starfslið Byrs í Reykjanesbæ er skipað fjórum fyrrverandi starfsmönnum Sparisjóðsins í Keflavík sem allar eru með yfir 25 ára starfsreynslu. Þær hafa líka fengið óteljandi kossa og faðmlög síðustu daga. Síðustu daga hafa þær fjórar haft liðsauka frá höfuðstöðvum Byrs og ekki veitir af. Ásdís Ýr á reyndar von á því að útibúið í Reykjanesbæ stækki hratt og fjölga þurfi starfsmönnum.
Elsa Skúladóttir, þjónustufulltrúi, segir það vera einfalt mál fyrir viðskiptavini að færa viðskipti á milli banka. Aðeins þurfi að fylla út eitt eyðublað og svo sjái bankarnir um viðskiptaflutningana og að millifæra reikninga viðskiptavina, segja upp greiðsluþjónustureikningum og stofna nýja, svo eitthvað sé nefnt.
Eins og segir hér að framan koma langflestir viðskiptavinirnir frá Landsbankanum. Landsbankinn hefur svarað því að hann hafi ekki fengið beiðnir um viðskiptaflutning og sagði Ásdís eðlilegar skýringar á því. Byr hafi ekki sent beiðnir um viðskiptaflutning til Landsbankans og það verði ekki gert fyrr en nýir viðskiptavinir Byrs verði komnir með greiðslukort vegna nýrra reikninga.