Opnar sýningarsal með lifandi kröbbum og skeldýrum
Veitingahúsið Vitinn í Sandgerði hefur sett upp sýningarsal í næsta húsi, en þar eru lifandi krabbar og skelfiskdýr til sýnis fyrir gesti Vitans og er velkomið að njóta sýningarinnar endurgjaldslaust.
Í dag er Vitinn eini veitingastaðurinn á Íslandi, ef ekki í Evrópu sem að býður upp á grjótkrabba. Þessa sérstöðu má einkum rekja til takmarkaðrar útbreiðslu grjótkrabbans við austurströnd N-Ameríku. Árið 2006 varð hans þó fyrst vart í Hvalfirði en síðan þá hefur hann fundist á nokkrum stöðum í innanverðum Faxaflóa og Breiðafirði.
Vitinn hefur verið að gera tilraunir með matreiðslu grjótkrabbans frá því í fyrra enda þykir hann herramanns matur. Sjómenn á svæðinu sjá þeim fyrir krabbanum ferskum og flottum auk þess sem Vitinn fær frábæra aðstöðu við Fræðasetrið í Sandgerði, segir í tilkynningu.
Stefán vert á Vitanum og Gréta Mar sjómaður spá í eldun á Sæbjúgum. Suma daga koma sjómennirnir með fleiri krabbategundir í land t.d. gaddakrabba, bogakrabba og trjónukrabba. Þegar svo ber undir fá gestir staðarins einnig að njóta þeirra svo oft er í raun boðið upp á þrjár til fjórar tegundir af krabba.