Opna þjónustuverkstæði Geysis fyrir bíleigendum á Suðurnesjum
Bílaleigan Geysir hefur brugðið á það ráð að nýta þá innviði sem eru til staðar hjá fyrirtækinu og opna alhliða bílaþjónustu á verkstæði þeirra á Ásbrú. Ásgeir Elvar Garðarsson hjá Geysi segir að þetta hafi legið vel fyrir enda hefur Geysir gríðarlega mikla reynslu af allri bílatengdri þjónustu.
„Við höfum þjónustað bílaflota bílaleigunnar sjálfir í fjölda ára og síðustu ár hafa þetta verið þúsundir bíla á hverju ári. Við sinnum helst smur- og dekkjaþjónustu en við tökum einnig að okkur smærri viðgerðir eins og bremsuskipti.
Eins vel og hlutirnir litu út í sumar þá var fótunum algjörlega kippt undan okkur þegar landinu var lokað á ný þann 19. ágúst. Við gerðum okkur strax grein fyrir því að ekkert yrði að ferðamannavetrinum 2020. Þá var bara að duga eða drepast. Við snúum okkur því nú að nærumhverfinu og leggjum áherslu á að veita Suðurnesjamönnum þá flottu þjónustu sem við höfum veitt ferðamönnum síðustu ár,“ segir Ásgeir í samtali við blaðið og segir að með þessu sé verið að skapa störf fyrir starfsmenn á þjónustuverkstæði Geysis á tímum mikils samdráttar í ferðaþjónustunni.
Fá bílaleigubíl
Geysismenn bjóða viðskiptavinum bílaleigubíl á meðan bíllinn þeirra er þjónustaður af Geysi og því þarf enginn að bíða á staðnum meðan bíllinn fær þjónustu. Þannig geta viðskiptavinir komið ýmist fyrir vinnu eða í hádegishléinu og farið svo í vinnunna og sótt bílinn sinn seinna um daginn.
„Að sama skapi nýtum við bílaþvottastöðina okkar og bjóðum öllum upp á bílaþvott með þjónustunni, svona til að gera þetta alhliða.
Ég vona svo sannarlega að þetta mælist vel fyrir Suðurnesjamönnum. Með þessu náum við vonandi að búa til næg verkefni fyrir okkur næstu misseri og ef allt fer á besta veg þurfum við jafnvel að bæta í,“ segir Ásgeir brattur.